Translate to

Saga félagsins

Saga félagsins

Verkalýðsfélag Vestfirðinga - Verk-Vest tók til starfa 1. janúar 2002 með sameiningu 6 verkalýðsfélaga á Vestfjörðum. Þau voru: Verkalýðsfélagið Baldur á Ísafirði, Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga í Súðavík, Verkalýðsfélag Hólmavíkur, Verkalýðsfélagið Skjöldur á Flateyri, Verkalýðsfélagið Brynja á Þingeyri og Verkalýðsfélagið Vörn á Bíldudal.

Lesa meira

Þættir úr sögunni

Verkfall Baldurs á Ísafirði í febrúar 1926 er talið það mikilvægasta á upphafsárum félagsins. Finnur Jónsson formaður Baldurs árin 1921-1932, alþingismaður og síðar ráðherra, skrifaði um það: „Enn stóðu þó stærstu atvinurekendurnir, með bankaútibúin að bakhjalli, í hatramlegri andstöðu við fólkið og hugðust að kúga það undir sig. Hörðustu átökin urðu vorið 1926. Þá buðu atvinnurekendur verkafólkinu slík smánarboð, að alþýðan þoldi þetta ekki lengur, heldur fylkti liði í Baldri og braut vald þeirra á bak aftur." 

Lesa meira

Verslunarmannafélag Ísafjarðar

Verslunarmannafélag Ísafjarðar var stofnað 26. júlí 1957. Fyrsti formaður þess var Jón Páll Halldórsson skrifstofumaður. Félagið gekk þegar í Landssamband íslenskra verslunarmanna, en formaður þess Sverrir Hermannsson vann að undirbúningi og flutti ávarp á stofnfundi félagsins. Félagið gekk í Alþýðusamband Íslands með Landssambandi íslenskra verslunarmanna árið 1964. Verslunarmannafélagið gerðist aðili að Alþýðusambandi Vestfjarða árið 1977, en þá hafði málið verið til umræðu í félaginu um nokkur ár.

Lesa meira

Verkalýðsfélagið Vörn, Bíldudal

Verkalýðsfélagið Vörn, Bíldudal var stofnað 11. júní 1931. Fyrsti formaður félagsins var Jón Magnússon á Jaðri. Með honum í stjórn voru Ingimar Júlíusson, Ebeneser Ebenesersson, Viktoría Bjarnadóttir og Jónína Ólafsdóttir. Viktoría átti hugmyndina að nafni félagsins. Undirbúningur félagsins hafði farið fram í barnaskólanum en stofnfundurinn var haldinn í Baldurshaga. Stofnfélagar voru um 70.

Lesa meira

Verkalýðsfélagið Skjöldur, Flateyri

Verkalýðsfélagið Skjöldur var stofnað á Flateyri 21. desember 1933. Stofnendur voru 12. Fyrsti formaður félagsins var Friðrik Hafberg, en hann gegndi formannsstarfi alls í 22 ár. Aðrir í fyrstu stjórn félagsins voru Halldór Vigfússon, Guðjón Jóhannesson, Jón Fr. Guðmundsson og Sturla Þórðarson.

Á Flateyri hafði áður verið stofnað Verkalýðsfélag Önfirðinga þann 16. október 1926 fyrir forgöngu Björns Blöndal Jónssonar erindreka Alþýðusambands Íslands. Formaður þess var Sveinn K. Sveinsson og stofnendur 22. Félagið átti erfitt uppdráttar og starfaði aðeins í tvö ár. Verkalýðsfélag Önfirðinga átti tvo fulltrúa á stofnþingi Alþýðusambands Vestfjarða í mars 1927, þá Svein K. Sveinsson og Hinrik B. Þorláksson.

Lesa meira

Verkalýðsfélagið Brynja, Þingeyri

Verkalýðsfélag Þingeyrar var stofnað 19. október 1926. Á stofnfundi mættu 64, en stofnfélagar voru alls skráðir 89, 71 karl og 18 konur. Félagið gekk þegar í Alþýðusamband Íslands og samþykkti aðild að Alþýðusambandi Vestfjarða þann 8. desember 1928. Nafni félagsins var breytt í Verkalýðsfélagið Brynja þann 15. desember 1935. Fyrsti formaður félagsins var Sigurður Fr. Einarsson, en þeir sem lengst hafa verið formenn eru Sigurður E. Breiðfjörð og Guðmundur Friðgeir Magnússon.

Lesa meira

Verkalýðsfélagið Baldur

Verkalýðsfélagið Baldur var stofnað af verkamönnum á Ísafirði 1. apríl árið 1916. Í fyrstu nefndist félagið Verkamannafélag Ísfirðinga, en nafninu var breytt í ársbyrjun 1917. Sama ár gekk félagið í Alþýðusamband Íslands, sem stofnað var 12. maí 1916, og var í senn bæði verkalýðssamband og stjórnmálaflokkur sem nefndist Alþýðuflokkurinn. Sú skipan hélst allt til ársins 1940. Fyrstu stjórn verkamannafélagsins skipuðu Sigurður H. Þorsteinsson, formaður, Kristján Dýrfjörð Kristjánsson, varaformaður, Jón G. Hallgrímsson ritari og Magnús Jónsson gjaldkeri.

Lesa meira

Verkalýðsfélag Patreksfjarðar

Verkalýðsfélag Patreksfjarðar var stofnað 16. október árið 1928. Á stofnfundi skrifuðu sig í félagið 55 verkamenn, 46 karlar og 9 konur, en á fundi daginn eftir bættust 29 félagsmenn við. Árið eftir voru meðlimir orðnir 156. Félagið var stofnað að undirlagi Verklýðssambands Vesturlands, eins og Alþýðusamband Vestfjarða kallaðist í fyrstu. Sambandið sendi Halldór Ólafsson ritstjóra Skutuls á Ísafirði og ritara sambandsins til að aðstoða við stofnfundinn. Verkalýðsfélag Patreksfjarðar gekk í Alþýðusamband Íslands árið 1930.

Lesa meira

Verkalýðsfélag Hólmavíkur

Verkalýðsfélag Hólmavíkur var stofnað 8. mars 1934 á Klossastöðum, en svo nefndist braggabygging í eigu Kaupfélags Steingrímsfjarðar á Hólmavík. Fyrsti formaður félagsins var Guðmundur Jónsson og með honum í stjórn voru Þorkell Jónsson, Jón Ottósson, Magnea Guðmundsdóttir og Guðbjörn Bjarnason. Guðmundur var helsti hvatamaður að stofnun félagsins og gegndi formennsku í níu ár.

Lesa meira

Verkalýðs- og sjómannafélagið Súgandi, Suðureyri

Í september árið 1931 fóru tveir af forystumönnum jafnaðarmanna á Ísafirði fótgangandi yfir Botnsheiði til Suðureyrar. Þar voru á ferðinni Hannibal Valdimarsson áður skólastjóri í Súðavík og Guðmundur G. Hagalín rithöfundur og bókavörður, báðir nýfluttir til Ísafjarðar. Þeir höfðu verið kosnir varaformaður og ritari Alþýðusambands Vestfirðingafjórðungs, eins og ASV hét þá, á þingi sambandsins fyrr á sama ári. Erindi þeirra var að breiða út boðskap verkalýðshreyfingarinnar í Súgandafjörð. Að kvöldi 21. september boðuðu þeir til fundar um verkalýðsmál í gamla samkomuhúsinu á Suðureyri. Þar var Súgandi stofnaður.

Lesa meira

Verkalýðs- og sjómannafélagið Grettir, Reykhólum

Verkamannafélagið Grettir, Reykhólum var stofnað 15. júlí árið 1956. Það var samþykkt í Alþýðusamband Íslands 28. ágúst sama ár. Fyrstu árin voru félagsmenn milli 15 og 20, flestir voru þeir 47 í kringum 1993, en tíu árum síðar voru félagsmenn 26, þar af 16 konur.

Lesa meira

Verkalýðs- og sjómannafélag Tálknafjarðar

Verkalýðsfélag Tálknafjarðar var stofnað 28. nóvember 1935 í barnaskólahúsinu á Sveinseyri. Fyrsti formaður þess var Jóhann L. Einarsson, Tungu. Aðrir í stjórn voru Albert Guðmundsson, Sveinseyri, Knútur Hákonarson, Bjarni E. Kristjánsson og Skúli Guðmundsson. Áður höfðu Albert og Jóhann boðað bréflega til undirbúningsfundar níunda sama mánaðar. Stofnendur voru 41, allt karlar.

Lesa meira

Verkalýðs- og sjómannafélag Kaldrananeshrepps, Drangsnesi

Verkalýðsfélag Kaldrananeshrepps, eins og félagið hér í upphafi, var stofnað 17. júní 1934 í Samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Aðalhvatamaður að stofnun félagsins var Guðmundur Guðni Guðmundsson og varð hann fyrsti formaður þess.

Á Drangsnesi hefur vélbátaútgerð og fiskvinnsla verið undirstaða þéttbýlis. Eins og á öðrum þéttbýlisstöðum sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi hafa skipst á skin og skúrir í atvinnu og afkomu fólks og fyrirtækja á staðnum, allt eftir því sem fiskigengd, markaðsmál og stjórnmál hafa þróast bæði innan lands og utan.

Lesa meira

Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga

Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga var stofnað 6. apríl árið 1928, sem bar upp á föstudaginn langa. Fyrsti formaður var Halldór Guðmundsson verkamaður og ritari Helgi Jónsson, en þeir voru helstu hvatamenn að stofnun félagsins. Gjaldkeri var Guðmundur Guðnason. Á stofnfundinn mætti einnig Ingólfur Jónsson lögfræðingur og bæjarritari á Ísafirði, forseti Verklýðssambands Vesturlands, sem stofnað hafði verið árið áður. Félagið gekk þegar í sambandið og í Alþýðusamband Íslands árið 1931.

Lesa meira

Sveinafélag byggingamanna, Ísafirði

Sveinafélag byggingarmanna, Ísafirði var stofnað þann 16. október árið 1980. Nefndist félagið í fyrstu Sveinafélag byggingariðnaðarmanna á Ísafirði. Á stofnfundi mættu 23 húsasmiðir, húsgagnasmiðir, múrarar, píparar og málarar. Pétur Sigurðsson forseti ASV hafði forgöngu um stofnun félagsins og hafði framsögu á fundinum. Fyrsti formaður félagsins var kjörinn Gunnar Pétur Ólason húsasmiður.

Lesa meira

Sjómannafélag Ísfirðinga

Sjómannafélag Ísfirðinga var stofnað 5. febrúar 1916. Fyrsti formaður þess var Eiríkur Einarsson, en aðrir í stjórn voru Sigurgeir Sigurðsson, Jón Björn Elíasson og Jónas Sveinsson. Á stofnfundinum voru skráðir í félagið 75 meðlimir, samkvæmt fundargerðabók, en fram að næsta fundi bættust við 34, þannig að stofnfélagar teljast 109. Félagar hafa lengst af verið hátt á annað hundrað, en mest um þjú hundruð á árum eftir síðari heimsstyrjöld.

Lesa meira