Translate to

Saga félagsins

Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga

Súðavík. Súðavík.

Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga var stofnað 6. apríl árið 1928, sem bar upp á föstudaginn langa. Fyrsti formaður var Halldór Guðmundsson verkamaður og ritari Helgi Jónsson, en þeir voru helstu hvatamenn að stofnun félagsins. Gjaldkeri var Guðmundur Guðnason. Á stofnfundinn mætti einnig Ingólfur Jónsson lögfræðingur og bæjarritari á Ísafirði, forseti Verklýðssambands Vesturlands, sem stofnað hafði verið árið áður. Félagið gekk þegar í sambandið og í Alþýðusamband Íslands árið 1931.

Erfiðlega gekk að fá atvinnurekendur í Súðavík til að viðurkenna samningsrétt verkalýðsfélagsins í fyrstu, einkum Grím Jónsson, sem rak umfangsmestu verslun og útgerð í plássinu. Bauðst hann jafnvel til að koma upp veglegum sjúkra- og styrktarsjóði fyrir verkafólk í Súðavík ef það segði sig úr Alþýðusambandi Vestfjarða. Að vísu átti sjóðurinn ekki að taka til starfa fyrr en að 25 árum liðnum. Félagið hafnaði þessu og sömuleiðis þeirri hugmynd að setja á fót gerðardóm með sóknarprestinn sem oddamann. Gekk í þessu stappi í tvö ár.

Árið 1930 fengu þeir Halldór og Helgi ungan barnakennara til að taka að sér formennsku í félaginu. Hann var þá nýlega heimkominn frá námi í Danmörku og hafði starfað sem skólastjóri við barnaskólann í Súðavík veturinn á undan. Þar með hófust afskipti Hannibals Valdimarssonar af verkalýðsmálum. Hannibal varð síðar formaður í Verkalýðsfélaginu Baldri á Ísafirði, forseti Alþýðusambands Vestfjarða og Alþýðusambands Íslands, alþingismaður og ráðherra. Val Hannibals til forystu í verkalýðsfélaginu í Súðavík helgaðist af því að hann var ekki háður útgerðarmönnum um laun og atvinnu og gat því beitt sér fyrir félagið án þess að eiga á hættu atvinnumissi. Það höfðu forystumennirnir í Súðavík mátt reyna.

Eldskírn sína fékk Verkalýðsfélag Álftfirðinga, eins og það hét fyrstu árin, í harðvítugu verkfalli vorið 1931. Verkfalli var lýst yfir til að knýja Grím Jónsson til að undirrita samning við félagið. Um sama leyti komu tvö vöruskip í fjörðinn hlaðin timbri og salti. Verkalýðsfélagið ákvað að koma í veg fyrir uppskipun, en aðrir, aðallega sjómenn, voru ráðnir til verksins í staðinn. Saltinu var skipað upp í árabáta og þeim róið að lausri bryggju í fjörunni, þaðan sem pokarnir voru bornir í pakkhús kaupmannsins. Kom þá til áfloga í fjöruborðinu í Súðavík þar sem karlar og konur úr verkalýðsfélaginu veltu byrðunum af þeim sem unnu að uppskipuninni og reyndu þannig að framfylgja boðuðu verkfalli. Eftir nokkur átök urðu verkfallsmenn frá að hverfa sökum liðsmunar. Þegar fréttist að erindreki Alþýðusambands Íslands væri á leiðinni til Súðavíkur til að stýra verkfallinu ákvað útgerðarmaðurinn tveim dögum síðar að undirrita samninga við félagið og viðurkenna það þannig í raun. Tímakaupið hækkaði í 1 krónu hjá karlmönnum, en hafði yfirleitt verið 60-80 aurar áður.

Sjómenn í Súðavík gengu fljótlega til liðs við félagið, og stofnuðu um tíma sérstaka sjómannadeild. Nafni félagsins var þá breytt í Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga. Sjómenn gerðu verkfall haustið 1935 sem stóð í þrjá mánuði, allt til nýjárs 1936. Helstu kröfur sjómanna voru að fá uppgert mánaðarlega og laun greidd í peningum, en slíkt hafði ekki tíðkast í Álftafirði fram að því. Verslanir í Súðavík ýmist lokuðu eða tæmdust í verkfallinu, enda í eigu útgerðarmanna og leituðu verkfallsmenn þá til verkalýðssamtakanna á Ísafirði og í Reykjavík og fengu aðstoð þaðan þegar komið var fram á jólaföstu. Tókst að ná fram helstu kröfum sjómanna í þessari vinnudeilu.

Frá þessum tíma hafa sjaldan orðið hörð verkfallsátök í Súðavík. Kaup og kjör urðu sambærileg og á öðrum stöðum á Vestfjörðum í sameiginlegum samningum Alþýðusambands Vestfjarða bæði á landi og á sjó. Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga hefur yfirleitt verið samstíga öðrum félögum á Vestfjörðum og tók meðal annars þátt í verkfalli fimm ASV-félaga vorið 1997. 

Samkomuhúsið í Súðavík. Samkomuhúsið í Súðavík.

Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga hefur tekið þátt í félags- og menningarmálum Súðvíkinga frá stofnun. Það átti forgöngu um byggingu Samkomuhúsins í Súðavík árið 1930, meðan Hannibal Valdimarsson var formaður þess. Bætti það úr brýnni þörf fyrir kennsluhúsnæði og til guðsþjónustu-, samkomu- og fundahalds í hreppnum. Verkalýðsfélagið hefur staðið að rekstri samkomuhússins, sem hefur þjónað menningar- og félagslífi Súðvíkinga allt fram á þennan dag.

Formenn Verkalýðs- og sjómannafélags Álftfirðinga hafa verið:

  • Halldór Guðmundsson 1428 - 1929 og 1943 - 1944
  • Hannibal Valdimarsson 1930 - 1931
  • Jón Gíslason 1932 - 1934
  • Ásgrímur Albertsson 1935
  • Kristóbert Rósinkarsson 1936
  • Ólafur Jónsson 1937, 1942 og 1945 - 1946
  • Þórður Jónsson 1938 - 1941
  • Albert Kristjánsson 1947 -
  • Bjarni Guðnason
  • Hálfdán Kristjánsson
  • Heiðar Guðbrandsson
  • Hafsteinn Númason
  • Eiríkur Ragnarsson
  • María Kristófersdóttir

Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga var eitt af stofnfélögum Verkalýðsfélags Vestfirðinga árið 2002.

Heimildir um Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga:
Skjalasafn Verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum. Deild 33.
Halldór Guðmundsson, „Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga 20 ára." Vinnan 6.árg. 1948, 10.-11. tbl., bls. 238-241.
„Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga." Vinnan, afmælishefti 1966, bls. 59-60.