Translate to

Saga félagsins

Verkalýðsfélagið Brynja, Þingeyri

Þingeyri. Þingeyri.

Verkalýðsfélag Þingeyrar var stofnað 19. október 1926. Á stofnfundi mættu 64, en stofnfélagar voru alls skráðir 89, 71 karl og 18 konur. Félagið gekk þegar í Alþýðusamband Íslands og samþykkti aðild að Alþýðusambandi Vestfjarða þann 8. desember 1928. Nafni félagsins var breytt í Verkalýðsfélagið Brynja þann 15. desember 1935. Fyrsti formaður félagsins var Sigurður Fr. Einarsson, en þeir sem lengst hafa verið formenn eru Sigurður E. Breiðfjörð og Guðmundur Friðgeir Magnússon.

Björn Blöndal Jónsson erindreki ASÍ stóð að undirbúningi félagsins og boðaði til félagsstofnunar. Björn stofnaði einnig félög á Flatyeri og í Bolungarvík í þessari útbreiðsluferð á vegum Alþýðusambands Íslands. Félögin á Flateyri og í Bolungarvík náðu ekki fótfestu í það skiptið, en félagið á Þingeyri óx og dafnaði undir forystu traustra hugsjónamanna. Árið 1926 urðu sviptingar í atvinnulífi Dýrfirðinga og nokkrum dögum fyrir stofnun verkalýðsfélagsins varð helsti atvinnurekandi á Þingeyri, Bræðurnir Proppé, gjaldþrota. Lengst af tuttugustu öld var Kaupfélag Dýrfirðinga helsti atvinnurekandinn á staðnum. 

Verkalýðsfélagið stofnaði árið 1929 Pöntunarfélagið Dýra, í samkeppni við verslanir á Þingeyri. Síðar opnaði pöntunarfélagið verslun sem starfaði undir stjórn Sigurðar Jóhannessonar til ársins 1940. Þá tók verkalýðsfélagið þátt í stofnun útgerðarfyrirtækja á Þingeyri. Verkalýðsfélagið stóð að framboði til sveitarstjórnar, í fyrsta sinn 1931, og fékk fulltrúa kjörna í hreppnefnd Þingeyrarhrepps. Sjúkrasjóður starfaði við félagið frá árinu 1931 og styrkti hann félagsmenn í veikindum, veitti fæðingarstyrki og létti undir með öldruðum félagsmönnum.

Í Haukadal við Dýrafjörð var í janúar 1936 stofnuð sérstök verkalýðsfélagsdeild innan Brynju. Nefndist deildin Skjöldur og starfaði til ársins 1953, lengst af undir stjórn Helga Bjarnasonar.

Verkalýðsfélagið Brynja var meðeigandi í samkomuhúsinu á Þingeyri frá upphafi. Um 1990 eignaðist félagið hús að Fjarðargötu 2 á Þingeyri, auk þess sem Brynja átti hlut í orlofshúsum verkalýðsfélaganna í Vatnsfirði á Barðaströnd og að Svignaskarði í Borgarfirði. 

Á Þingeyri hefur verið stunduð fjölbreytt útgerð og þjónusta frá því í lok nítjándu aldar. Franskir skútukarlar, bandarískir lúðuveiðimenn og breskir togarakarlar hafa sett svip sinn á athafnalíf og mannlíf í Dýrafirði síðustu öldina. Heimamenn hafa stundað skútuútgerð, vélbátaútgerð og togaraútgerð auk verslunar og þjónustu við aðkomumenn og Dýrfirðinga. Vélsmiðja Guðmundar J. Sigurðssonar var víðfræg fyrir smíðar sínar og þjónustu við báta og togara. Náði orðspor vélsmiðjunnar langt út fyrir íslenska landhelgi. Húsnæði vélsmiðjunnar á Þingeyri hefur verið gert að safni.

Á Þingeyri starfaði eldra verkalýðsfélag á árunum 1908 - 1910, oftast nefnt Verkamannafélagið á Þingeyri. Fundargerðabók félagsins ásamt lögum, félagatali og fleiri gögnum er varðveitt í safni félagsins.

Verkalýðsfélagið Brynja, Þingeyri var meðal stofnenda Verkalýðsfélags Vestfirðinga árið 2002.

Formenn Brynju hafa verið:

  • Sigurður Fr. Einarsson 1926-1927
  • Guðbrandur Guðmundsson 1928
  • Sigurður E. Breiðfjörð 1929-1930, 1932-1934, 1936-1937, 1940-1957
  • Óskar Jónsson 1931
  • Steinþór Benjamínsson 1935, 1938-1939
  • Björn Jónsson 1957-1958
  • Guðmundur Friðgeir Magnússon 1959-1997
  • Valdís Bára Kristjánsdóttir 1997-2000
  • Gunnhildur Elíasdóttir 2000-2002

Heimildir:

  • Skjalasafn Verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum. Deild 36.
  • „Verkalýðsfélagið Brynja, Þingeyri." Vinnan, afmælishefti 1966, bls. 53.
  • „Verkalýðsfélagið Brynja á Þingeyri þrítugt." Vinnan 13. árg., 9-12, des. 1956, bls. 15-16. (Í.J.)
  • Ingi S. Jónsson. „Allt sem hann snerti á lék í höndum hans." Mannlíf og saga fyrir vestan. Ritröð 7. hefti. Vestfirska forlagið 2000, bls. 39-44 (um Sigurð E. Breiðfjörð).
  • Ingi S. Jónsson. „Upphaf verkalýðshreyfingar á Þingeyri." Mannlíf og saga fyrir vestan. Ritröð 8. hefti. Vestfirska forlagið 2001, bls. 31-33.