Framleiðni og raunlaun í þróuðum ríkjum
Framleiðni og raunlaun í þróuðum ríkjum

Það hefur hægt á vexti raunlauna á heimsvísu en á árinu 2013 nam vöxturinn 2%, sem 0,2 prósentustigi lægra en árið á undan. Hækkun launa er þannig enn langt undir því sem þekktist fyrir kreppu líkt og kemur fram í nýlegri skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO), Global Wage Report. Þar kemur ennfremur fram að megindrifkraftur launavaxtar hefur átt rætur að rekja til nýmarkaðsríkja.

Þetta gefur til kynna lítinn vöxt launa í þróuðum ríkjum, en líkt og kemur fram í skýrslunni hafa laun staðið í stað í mörgum þróuðum ríkjum og dregist saman sumstaðar.

Skýrsluhöfundar vekja sérstaka athygli á stöðunni innan þróaðra ríkja, sérstaklega í ljósi þess að innan margra þeirra voru raunlaun lægri árið 2013 heldur en þau voru árið 2007 (t.d. í Grikklandi, Ítalíu, Japan, Spáni, Írlandi og Bretlandi). Lítil hækkun launa hefur þannig hægt á efnahagsbatanum í Evrópu, haldið niðri eftirspurn og skapað aðstæður fyrir verðhjöðnun.

Innan þróaðra ríkja hafa raunlaun ekki vaxið í takt við aukna framleiðni og hægur vöxtur launa hefur þannig orðið til þess að draga úr hlutfalli launa af verðmætasköpuninni á undanförnum tveimur áratugum. Þessi þróun er breytileg milli ríkja en líkt og bent er á í skýrslunni gætir töluverðra áhrifa af þróun stærstu hagkerfanna, þ.e. Þýskalands, Japans og Bandaríkjanna.

Nánari upplýsingar um skýrsluna gefur Róbert Farestveit hagfræðingur hjá ASÍ.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.