Verðlagseftirlit ASÍ kannaði breytingar á gjaldskrá fyrir skóladagvistun ásamt hressingu og verði á hádegismat fyrir yngstu nemendur grunnskólanna hjá 15 fjölmennustu sveitarfélögum landsins. Ekki er tekið tillit til seðilgjalda eða annarra innheimtugjalda, sem leggjast ofan á gjöldin sem innheimt eru jafnvel í tvennu lagi. Einnig er í boði ávaxtastund og mjólkuráskrift sem ekki er tekið með í samanburðinum.

Ellefu sveitarfélög af þeim fimmtán sem skoðuð voru hafa hækkað hjá sér gjaldskrána fyrir skóladagvistun með hressingu á milli ára. Lægsta mánaðargjaldið er í Vestmannaeyjum 14.165 kr./mán. en hæsta gjaldið er í Garðabæ 24.976 kr./mán. verðmunurinn er 10.811 kr. eða 76%. Mesta hækkun á gjaldskránni er á Seltjarnarnesi um 26%, úr 19.723 kr./mán. í 24.850 kr./mán. sem er 5.127 kr. hækkun á mánuði. Sveitarfélagið Skagafjörður hefur hækkað um 8%, Akureyri 4%, Reykjavík, Garðabær, Mosfellsbær, Árborg, Akranes og Fjarðarbyggð um 3%, Kópavogur og Vestmannaeyjar um 2%. Aðeins Hafnarfjörður, Reykjanesbær, Ísafjörður og Fljótsdalshérað hafa ekki hækkað gjaldskrána milli ára.  

Þegar skoðaður er heildarkostnaður fyrir skóladagvistun með hressingu og hádegismat í skólum landsins, er Sveitarfélagið Skagafjörður með lægsta verðið 21.777 kr./mán. en hæsta verðið er í Garðabæ 33.964 kr./mán. en það er 12.187 kr. verðmunur á mánuði eða 56%. 

Systkinaafslættir eru misjafnir eftir sveitarfélögum. Afslátturinn fyrir annað barn er frá 25% upp í 75% og afslátturinn fyrir þriðja barn er frá 25% upp í 100%. Ekki er gefinn afsláttur af fæði.

Nánar er fjallað um könnunina á heimasíðu ASÍ.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.