Translate to

Fréttir

Vörukarfan hefur hækkað í verði í öllum verslunum nema Víði frá því í júní

Vörukarfa ASÍ hefur hækkað í verði hjá 11 verslunarkeðjum af 12 frá því í byrjun júní (vika 24) fram í september (vika 38). Mesta hækkunin á þessu tímabili er hjá Krónunni, Bónus og Kaupfélagi Skagfirðinga, en karfan lækkaði aðeins í verði hjá Víði. Á tímabilinu má sjá hækkanir í öllum vöruflokkum en áberandi eru hækkanir á mjólkurvörum sem hækka um 3-5% í flestum verslunum.

Krónan hækkar mest

Mesta verðhækkunin á körfunni var 3,2% hjá Krónunni, um 2,4% hjá Bónus og Kaupfélagi Skagfirðinga, 1,9% hjá Kaupfélagi Vestur Húnvetninga, 1,3-1,7% hjá Nettó, Iceland, Hagkaupum, Samkaupum-Úrvali, Samkaupum-Strax og Kjarval og um 0,9% hjá 10/11. Verð körfunnar hefur á sama tímabili lækkað um 2,4% hjá Víði og er mesta lækkunin hjá þeirri verslun í vöruflokknum grænmeti og ávextir sem hefur lækkað í verði um 11,3%. Miklar hækkanir eru annars í öllum vöruflokkum. Mest hækka mjólkurvörur, ostar og egg í öllum verslununum. 

Sælgæti hækkar í verði

Sætindi eru að hækka í verði eftir að hafa lækkað í kringum áramótin vegna afnáms sykurskattsins. Er hækkunin á bilinu 1,1-2,8% hjá Bónus, Krónunni, Iceland, Hagkaupum, Samkaupum-Úrvali, 10/11 og Kjarval. Hækkunin er minni hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, Samkaupum-Strax og Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga eða um 0,2-0,6%. Í Nettó er lækkun um 0,9% og hjá Víði um 1,8%.

Nánar á www.asi.is

Deila