föstudagurinn 23. júlí 2021

Er trúnaðarmaður á þínum vinnustað?

Trúnaðarmenn Verk Vest að loknu námskeiði
Trúnaðarmenn Verk Vest að loknu námskeiði

Samkvæmt kjarasamningum á að vera trúnaðarmaður á öllum vinnustöðum sem hafa fimm eða fleiri starfsmenn. Starfsfólk á hverjum vinnustað kýs sér trúnaðarmann til tveggja ára í senn. Kosning fer fram í samráði við Verk Vest. Eftir kosningu fær trúnaðarmaður og atvinnurekandi senda staðfestingu á kjöri. 

Ef enginn trúnaðarmaður er á þínum vinnustað, viljum við biðja þig um að hafa samband við skrifstofur Verk Vest í síma 456 5190 eða senda tölvupóst á postur@verkvest.is til að fá aðstoð við að kjósa trúnaðarmann.

Næsta námskeið fyrir trúnaðarmenn hjá Verk Vest verður haldið dagana 20. - 22. september.


þriðjudagurinn 20. júlí 2021

Bætum umgengni um orlofshús og íbúðir

Íbúð 405 í Sunnusmára 18
Íbúð 405 í Sunnusmára 18

Að gefnu tilefni er mikilvægt að hafa í huga að orlofshús og íbúðir hjá Verk Vest eru sameign okkar allra. Það eru félagsmenn sem borga sjálfir kostnað við reksturinn. Því er afar mikilvægt að við sameinumst öll um að ganga um húsin okkar með því hugarfari að við eigum þetta sjálf!

Undanfarin ár hefur ræstingafyrirtækið Sólar séð um þrif á íbúðum félagsins á höfuðborgarsvæðinu. Félagsmenn þufa því ekki að þrífa íbúð eftir afnot en að sjálfsögðu þarf að skila íbúðinni snyrtilegri þannig að vel sé gengið frá við brottför. 

Önnur regla gildir um sumarbústaðina okkar og íbúðina á Akureyri, þar eiga félagsmenn að þrífa við brottför.

Rétt er að ítreka að allar upplýsingar um orlofseign sem verið er að leigja koma fram á samningi sem viðkomandi fær þegar hann leigir íbúð eða sumarhús hjá félaginu.

Við skulum því hafa að leiðarljósi okkar að skilja við orlofseignir okkar eins og við viljum sjálf koma að þeim. Skilji félagsmaður illa við orlofseign að mati umsjónarmanns á viðkomandi svæði, má búast við að viðkomandi þurfi að borga sérstakt þrifagjald.


fimmtudagurinn 15. júlí 2021

Laus tímabil í Flókalundi!

1 af 2

Nokkur tímabil í Flókalundi eru laus til bókunar í ágúst og september. Við minnum líka á að frá 20. ágúst er einnig hægt að bóka helgarleigur í Flókalundi. Gildir sú regla fram til lokunar orlofsbyggðarinnar 14. september. Hægt er að skoða laus tímabil á orlofsvef félagsins.

Fyrstur kemur fyrstur fær!

 


mánudagurinn 12. júlí 2021

Sumarlokun skifstofu Verk Vest á Patreksfirði

Skrifstofa Verk Vest er í Ólafshúsi á Patreksfirði
Skrifstofa Verk Vest er í Ólafshúsi á Patreksfirði

Skrifstofa Verk Vest á Patreksfirði verður lokuð vegna sumarleyfa frá 19. júlí til 16. ágúst. Félagsmönnum er bent á skrifstofu félagsins á Ísafirði sem er opin alla virka daga frá kl. 09.30 - 15:00. Rétt er að minna á mínar síður þar sem hægt er að sækja ýmsa þjónustu hjá félaginu með rafrænum hætti. 


Í dag kveðjum við samstarfskonu okkar, Unni Ólafsdóttur, hinstu kveðju. Hún var búsett að Miðhúsum í Strandabyggð og lést á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi 23. júní sl. eftir snarpa baráttu við krabbamein. Hún verður jarðsungin í dag frá Reykholtskirkju í Borgarfirði og lögð til hvílu í kirkjugarðinum í Stafholti.

Undanfarin ár hefur Unnur verið hluti af starfsliði Verk Vest og sá um þjónustuskrifstofu á Hólmavík og sinnti því af miklum sóma. Við hjá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga minnumst Unnar með þakklæti í hjarta fyrir ánægjulegt samstarf og vel unnin störf í þágu félagsins.

Stjórn og starfsfólk Verk Vest sendir fjölskyldu Unnar og aðstandendum dýpstu samúðarkveðjur.


Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.