Translate to

Fréttir

ASÍ 100 ára - "Réttindi okkar duttu ekki af himnum ofan"

Kröfuganga á 1. maí 2008 Kröfuganga á 1. maí 2008
Úrklippa úr verkfallsátökum 1997 Úrklippa úr verkfallsátökum 1997
Baldursfélagar sem unnu fiskinn vildu fá réttmætan hlut í arðinum af auðlindinni Baldursfélagar sem unnu fiskinn vildu fá réttmætan hlut í arðinum af auðlindinni
Þing ASV á Flateyri 1937 Þing ASV á Flateyri 1937
Forystufólk Verk Vest á námskeiði 2016 Forystufólk Verk Vest á námskeiði 2016

Árið er 2016. Fyrir 100 árum kom íslenskt verkafólk saman og stofnaði eigin samtök til að berjast gegn misrétti og kúgun sem viðgengist hafði á íslenskum vinnumarkaði í árhundruðir. Alþýðusambandið var stofnað þann 12. mars 1916, gleymum því ekki að nokkur stéttarfélög voru einnig stofnuð sama ár. Á Vestfjörðum voru tvö stéttarfélög stofnuð árið 1916; Sjómannafélag Ísafjarðar þann 5. febrúar og Verkalýðsfélagið Baldur þann 1. apríl.

Sjómannafélagið náði fyrst stéttarfélaga á Ísafirði viðurkenndum kjarasamningi um launakjör félagsmanna sinna strax árið 1916. Var það í fyrsta skipti sem atvinnurekendur viðurkenndu samningsrétt verkalýðsfélags á Ísafirði. Félagið átti þátt í að ná fram ýmsum af helstu réttindum sjómanna svo sem kauptryggingu árið 1936 og heildarkjarasamningum sjómanna á Vestfjörðum árið 1952 sem tryggðu vestfirskum sjómönnum betri skiptakjör en víða annarsstaðar á landinu.

Vlf. Baldur var á tíunda starfsári þegar ein mikilvægasta kjarabarátta félagsins stóð yfir. Þá ætluðu atvinnurekendur með aðstoð banka og lögregluvalds að brjóta samstöðu verkafólks á bak aftur og kúga það til hlýðni. Með samstöðuna að vopni tókst Baldursfélögum að brjóta vald atvinnurekenda á bak afur og ná fram tímmótasamningum. Eftir átökin fékk félagið samningsrétt sinn viðurkenndan, en á þeim tíma höfðu aðeins fá félög náð þeim árangri.

Nýr taktur í samskiptum aðila vinnumarkaðarins sem endurspeglast í hörðum átökum í Straumsvík er um margt líkur því sem var í gangi fyrir 80 árum. Auðvaldshringur með aðstoð samtaka íslenskra atvinnurekenda ætlar með aðstoð lögregluvalds að brjóta á bak aftur löglega boðaðar aðgerðir verkafólks til að ná fram nýjum kjarasamningi.

Mjög víða á vinnumarkaði er notast við hótanir sem stjórntæki til að berja niður samstöðu launafólks. Viljum við að sagan endurtaki sig eða ætlum við að byggja á því sem skipuleg barátta fyrir bættum kjörum hefur skilað okkur? Bættum kjörum sem hefur verið barist fyrir í 100 ár af órjúfanlegri samstöðu hinna vinnandi handa?

Barátta og samstaða hefur skilað okkur þeim ávinningi sem við njótum í dag. Samstaða sem byggir á samhug, náungakærleik og því sem mestu skiptir, að bera hag heildarinnar fyrir brjósti. Ætlum við að tryggja að svo megi verða í komandi framtíð? Tökum öll þátt í baráttunni, ekki vera eingöngu þiggjendur og farþegar. 

Í tilefni 100 ára baráttu verkafólks er vert fara yfir hverju sú barátta hafur skilað verkafólki og landsmönnum öllum!

Árið 1910 var fyrst gerð tilraun til að lögbinda tíu tíma vinnudag en ekkert þokaðist fyrr en þingmenn ASÍ tóku umræður um hvíldartíma sjómanna upp á Alþingi. Í framhaldinu komu Vökulögin sem tryggðu íslenskum Sjómönnum sex tíma hvíld á sólahring.

Árið 1920 heyrðist í fyrsta sinn krafan um átta stunda vinnudag hérlendis, hjá prenturum. Eftir hörð átök á vinnumarkaði árið 1942 náðist fram átta stunda vinnudagur inn í kjarasamninga. En það var ekki fyrr en 1972 sem 40 stunda vinnuvika var loks lögfest. 

Fyrstu lögin um almannatryggingar voru sett árið 1936 eftir margra ára þref á Alþingi. Andstæðingar verkamanna héldu því meira að segja fram í fullri alvöru að almennileg samfélagsþjónusta myndi ýta undir veikindi og leti. Með almannatryggingunum var viðurkennt að allir í samfélaginu bæru ábyrgð á að framfleyta þeim sem ekki höfðu tök á því sjálfir. Lög um Atvinnuleysistryggingasjóð komu síðan fram árið 1956 til að tryggja þeim sem eru í atvinnuleit lágmarksframfærslu þangað til starf hæfist á nýjan leik.

Lög um stéttarfélög og vinnudeilur eða vinnulöggjöfin var lögtekin árið 1938. Helsta markmið laganna er að tryggja vinnufrið. Lögin eiga að tryggja að vegna árekstra sem kunna að skapast á milli aðila vinnumarkaðarins hljótist sem minnst tjón fyrir atvinnulífið í landinu.


Réttinn til orlofs fékk íslenskt verkafólk árið 1943, eftir að frumvarp þess efnis hafði legið fyrir Alþingi árum saman. Blað ASÍ, Vinnan, nefndi árangurinn "... réttarbót, sem telja verður stórsigur í hagsmunabaráttu íslenzks verkalýðs."  ASÍ lagði strax áherslu á að fólk gæti nýtt orlof sitt sem best og liður í því var bygging orlofshúsa víðs vegar um landið. Þau fyrstu risu í Ölfusborgum árið 1962, en landssvæðið við Hveragerði fékk Alþýðusambandið að gjöf frá þáverandi forsætisráðherra.

Í kjarasamningi ASÍ og vinnuveitenda árið 1969 var kveðið á um að stofnaðir skyldu lífeyrissjóðir á félagslegum grundvelli fyrir alla launamenn innan Alþýðusambandsins. Þá hafði verið rætt um almenna lífeyrissjóði á Alþingi frá árinu 1957. Nýr samningur var gerður um sjóðina árið 1995 þar sem grunnstoðirnar þrjár voru áréttaðar; samtrygging, skylduaðild og sjóðssöfnun.

Þá má einnig telja hér upp áfanga eins og sjúkrasjóði stéttarfélaganna – verkamannabústaði - kvennafrídaginn - fæðingarorlof og nokkru síðar feðraorlof, fræðslusjóði stéttarfélaganna og nú síðast starfsendurhæfingarsjóð, svo nokkur mikilvæg atriði séu nefnd.

Skylda launafólks er að styðja hvort annað í baráttunni fyrir bættum kjörum og framförum í réttindamálum okkar. Baráttan fyrir réttindunum sem flestir telja sjálfsögð hefur kostað íslenska alþýðu blóð svita og tár.  Verkafólk má ekki láta etja sér saman líkt og var ástundað fyrir miðja síðustu öld þegar þrengdi að á vinnumarkaði. Á þeim tíma var reynt að brjóta niður baráttuvilja verkafólks með öllum tiltækum ráðum. Við megum ekki láta slíkt henda aftur, til of mikils hefur verið barist. Gleymum ekki að réttindin duttu ekki af himnum ofan. Fyrir þeim hefur verið barist í rúm 100 ár.

Verkafólk, til hamingju með 100 árin. Megi næstu 100 skila okkur enn fleiri sigrum.

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga

Deila