Translate to

Fréttir

Aðalfundur Verk Vest samþykkir breytt lög félagsins

Við upphaf aðalfundar Við upphaf aðalfundar
Mjög góð mæting var á aðalfund Verk Vest sem haldinn var á Hótel Ísafirði í gærkvöldi. Fyrir fundinum lágu efnismiklar laga- og reglugerðabreytingar sem lúta að innra starfi félagsins. Stærsta breytingin er sú að félagið verður skipt upp í starfsgreinadeildir í stað gömlu svæðisdeildanna. En það lá fyrir allt frá stofnun félagsins að í framtíðinni yrði því starfsgreinaskipt. Með þessu móti verða t.d. allir sjómenn innan Verk Vest í einni sjómannadeild, sama á við um aðrar starfsgreinar, þeim verður fundinn farvegur innan nýju deildanna allt eftir kjarasamningssviði hverrar starfsgreinar.

Á fundinum voru einnig samþykktar nýjar starfs- og siðareglur félagsins. Félagið hafið áður sett sér siðareglur árið 2011 og má segja að með þessari breytingu þá hafi þessar eldri reglur verið endurbættar ásamt því að unnið var að því að skerpa á ábyrgð og hlutverki fulltrúa og starfsmanna Verk Vest. En slíkt hefur staðið til í nokkurn tíma. Með þessum hætti verður auðveldara fyrir nýtt fólk að koma að trúnaðarstörfum fyrir félagið þar sem leikreglur og leiðbeiningar sem eru í gildi verða skýrari og aðgengilegri.

Aðalfundur samþykkti einnig að stofna sérstakan styrktar- og fræðslusjóð. Hann er hugsaður fyrir þá félagsmenn sem starfa hjá ríkisstofnunum og sveitarfélögum sem vil sækja sér aukna starfmenntun. Er sjóðurinn hugsaður sem viðbót við þá styrki sem félagsmenn okkar geta sótt um hjá starfsmenntasjóðunum Ríkismennt og Sveitamennt. Eldri félagsmenn sem hafa lokið starfsæfinni hjá félaginu geta einnig sótt um styrki í sjóðinn.

Mikil vinna hefur verið lögð í þær breytingar sem fundurinn samþykkti í gær, og hafa þær verið unnar í nánu samstarfi stjórnar og trúnaðarráðs. Afrakstur þeirrar vinnu var lagður fyrir opinn vinnufund stjórnar og trúnaðarráðs þann 16. apríl síðast liðinn. Afrakstur þess fundar var síðan lagður fyrir aðalfund félagsins til umræðu og afgreiðslu. Í öllu vinnuferlinu var stuðst við þær viðmiðunarreglur sem eru í gildi hjá Alþýðusambandi Íslands ( ASÍ ) ásamt því að horft var til starfs- og siðareglna sem lífeyrissjóðir innan aðildarsamtaka ASÍ hafa verið að setja sér að undanförnu.

Breytingar á lögum og reglugerðum sjóða félagins ásamt nýjum starfs- og siðareglum verða nú sendar til ASÍ sem þarf að staðfesta á breytingarnar áður en þær geta tekið gildi. En breytingarnar þurfa að vera í samræmi við lög og reglur ASÍ.

Deila