Translate to

Fréttir

Allt að 96% munur á kostnaði heimila við flutning og dreifingu raforku !

Allt að 96% verðmunur er á flutningi og dreifingu raforku milli fyrirtækja en tiltölulega lítill munur er á hæsta og lægsta verði orkusala eða 9,17%. Kostnaður við flutning og dreifingu raforku hefur hækkað um 2,6 -19,4% síðan í ágúst 2016. Mest hefur raforkukostnaðurinn hækkað hjá Norðurorku, 19,4% en minnst hjá Rafveitu Reyðarfjarðar, 2,6%. Veitur er eina fyrirtækið sem hefur lækkað sínar gjaldskrár en þar hefur raforkukostnaður lækkað um 6,6%.

Orkubú Vestfjarða í dreifbýli með hæsta verðið fyrir flutning og dreifingu á raforku. Flutningur og dreifing raforku er þjónusta sem heimilin hafa ekkert val um heldur verða að versla við þá dreifiveitu sem hefur einkaleyfi á flutningi og dreifingu á viðkomandi landssvæði. Engin leið er því fyrir viðskiptavini að komast undan verðhækkunum dreifiveitna. Mikill verðmunur er á flutningi og dreifingu raforku en heimili sem nýtir 4.000 kW stundir á ári borgar 41.949 kr. hjá Veitum, sem er lægsta verðið en 81.916 kr. hjá Orkubúi Vestfjarða, sem er hæsta verðið en það gerir 96% eða 40.66 kr. verðmun.

Lítil samkeppni milli raforkusala – Orka Náttúrunnar með hæsta verðið . Orkusala er sá hluti raforkukostnaðar sem heimilin hafa val um hvar þau versla en verð á orkusölu hefur hækkað um 7,7-13,4% síðan árið 2016. Minnsta hækkunin er hjá Orkubúi Vestfjarða eða 7,7% en þeir bjóða upp á næst lægsta verðið, 43.896 kr. Orka heimilanna býður upp á lægsta verðið, 43.822 kr. en það fyrirtæki var stofnað á þessu ári og því hafa ekki orðið neinar hækkanir á verðskrá þeirra. Lítill munur er á verðskrám þeirra sjö orkusala sem fólk hefur val um en munur á hæsta og lægsta verði í orkusölu er 9,7% eða 2.678 kr. sem ber þess merki að lítil verðsamkeppni sé á milli aðila á markaði.

Nánar er fjallað um málið á vef ASÍ

Deila