Translate to

Fréttir

Ár frá gjaldþroti Eyrarodda

Frá fundinum í Sólborg á Flateyri Frá fundinum í Sólborg á Flateyri
Fulltrúar þeirra stofnana í stoðkerfi Ísafjarðarbæjar sem komu að aðstoð við atvinnuleitendur á Flateyri eftir að fiskvinnslan Eyraroddi ehf. varð gjaldþrota, komu sama til fundar á Flateyri þann 12. janúar sl. Á fundinum, sem haldinn var í Sólborg á Flateyri, var farið yfir þau verkefni sem komið var af stað og hvernig þau hafa nýst atvinnuleitendum og samfélaginu á Flateyri. Mikið hefur mætt á starfsfólki þessara stofnana en að öðrum ólöstuðum má segja að Fræðslumiðstöðin hafi staðið vaktina með miklum sóma. Fjölmörg námskeið hafa verið haldin, bæði starfstengd og til sjálfstyrkingar. Má þar nefna íslensku kennslu, tölvunám, bókhald, vélastjórnarnám ásamt fiskvinnslunámi svo nokkur séu nefnd.

Þessi námskeið hafa gefið atvinnuleitendum meiri og fjölbreyttari möguleika. Atvinnuleitendur hafa þó orðið varir við að þeir sem hafa íslenskukunnáttu ganga frekar fyrir í vinnu en þeir sem ekki tala íslensku. Með þessum námskeiðum telja heimamenn að markmið Fræðslumiðstöðvarinnar að styrkja samfélagið hafi tekist mjög vel. Þetta merkir fólk á að meiri tenging er orðin innan samfélagsins meðal Íslendinga og fólks af erlendu bergi. Vinnumarkaðsátak í umhverfismálum sem unnið var í samstafi Vinnumálastofnunar og Ísafjarðarbæjar hefur einnig skilað jákvæðum straumum inn í samfélagið á Flateyri. Fræðslumiðstöðin mun halda út starfsemi á Flateyri fram á vorið og vonandi lengur ef áhugi, vilji og fjármunir verða til staðar.
Deila