Translate to

Fréttir

Aukin brottflutningur íslenskra ríkisborgara þrátt fyrir góðæri

Búferlaflutningar hafa verið í umræðunni síðustu misseri og ekki að ósekju þar sem sveiflur í flutningsjöfnuði, þ.e. fjölda aðfluttra umfram brottflutta, hafa verið miklar undanfarin ár. Auknar sveiflur í seinni tíð má m.a. rekja til aukins hreyfanleika vinnuafls um Evrópu þar sem aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu og síðar stækkun Evrópusambandsins til austurs hafa gert búferlaflutninga auðveldari. Drifkraftar búferlaflutninga geta verið margvíslegir en gjarnan er mikil fylgni milli búferlaflutninga og efnahagslegra stærða á borð við atvinnuástands, hagvaxtar og verðbólgu.

Ein möguleg skýring á landflótta Íslendinga eru aðstæður á vinnumarkaði en einhæf fjölgun starfa undanfarin ár hefur ýtt undir misræmi framboðs og eftirspurnar vinnuafls. Þannig hefur fjölgun starfa undanfarin tvö ár að mestu leyti verið drifin áfram af uppgangi í mannaflsfrekum greinum á borð við ferðaþjónustu og tengdum störf. Þær greinar hafa hins vegar litla þörf fyrir menntað vinnuafl t.d. iðn-, tækni- eða háskólamenntað. Skýr merki um þessa þróun sjást í samsetningu atvinnulausra þar sem hlutfall háskólamenntaðra fer nú sífellt hækkandi.

Reynslan sýnir að hagvöxtur og jákvæð efnahagsleg skilyrði draga úr búferlaflutningum Íslendinga og því ekki ólíklegt að sú verði raunin á næstu árum miðað við núverandi horfur í hagkerfinu. Ef ástæða brottflutninga er hins vegar lítið framboð verðmætra starfa, ósamkeppnishæf lífskjör auk skorts á framtíðarsýn og tækifærum þá er það verulegt áhyggjuefni.

Nánar á ASI.IS

Deila