mánudagurinn 4. júní 2012

Boðað verkbann LÍÚ ólöglegt!

Fánum skrýddir Vestfirskir togarar á sjómannadegi
Fánum skrýddir Vestfirskir togarar á sjómannadegi
Þær aðgerðir sem LÍÚ hefur boðað gegn stjórnvöldum samræmast ekki leikreglum á vinnumarkaði. Vinnustöðvun eða verkbann líkt og LÍÚ hefur hvatt til í fréttatilkynningu frá laugardeginum 2. Júní standast ekki ákvæði í öðrum kafla laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sem fjallar um verkföll og verkbönn. Í 14.gr. laganna segir:
Heimilt er stéttarfélögum, félögum atvinnurekenda og einstökum atvinnurekendum að gera verkföll og verkbönn í þeim tilgangi, að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum, og til verndar rétti sínum samkvæmt lögum þessum, með þeim skilyrðum og takmörkunum einum, sem sett eru í lögum."
Boðaðar aðgerðir LÍÚ beinast ekki gegn viðsemjanda sem eru samtök sjómanna heldur gegn stjórnvöldum. Slíkt stangast algjörlega á við 17.gr. laga nr 80/1938 en þar stendur skýrum stöfum að óheimilt sé að hefja vinnustöðvun ef tilgangur vinnustöðvunar er að þvinga stjórnvöld til að framkvæma athafnir, sem þeim ber ekki að framkvæma lögum samkvæmt. Verkalýðsfélag Vestfirðinga beinir því til félagsmanna að leita réttar síns verði þeir fyrir fjárhagslegu tjóni sem megi rekja til boðaðs verkbanns LÍÚ verði það að veruleika. Slíkt verði ekki látið viðgangast óátalið af hálfu félagsins enda ber LÍÚ fulla ábyrgð þar sem um ólöglega aðgerð er að ræða.

Verkalýðsfélag Vestfirðinga beinir því til vestfirskra útgerðarmanna að virða lög og leikreglur á vinnumarkaði og senda skip sín á sjó eftir sjómannadagshelgarstoppið.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.