Translate to

Fréttir

Er Lífskjarasamningurinn að murka lífið úr veitingageiranum?

Í morgunútvarpinu á Bylgunni 10. nóvember var rætt við Emil Helga Lárusson, stjórnarformann Serrano. Umræðuefnið var ný skýrsla KPMG fyrir Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði sem hefur orðið til fréttaflutnings undir fyrirsögnunum „Veitingarekstur á vonarvöl – Launakostnaður veitingareksturs á Íslandi er sá langhæsti á Norðurlöndunum“ á síðu Veitingageirans, „Veitingarekstur á vonarvöl“ í Fréttablaðinu og „Jólin gætu skilið á milli feigs og ófeigs“ í Morgunblaðinu.

Í núverandi ástandi sem ekki þarf að tíunda er ljóst að veitingarekstur hefur tekið á sig mikið högg og full ástæða til að halda því á lofti. Það sem kom á óvart var að megin viðfangsefni viðtalsins var ekki erfitt rekstrarumhverfi greinarinnar í heild sinni, heldur það að launakostnaður sé að murka lífið úr geiranum! Tja, þarna var athygli minni náð. Mjög sannfærandi staðhæfir Emil að „Greinin sé mjög þjökuð af kjarasamningum undanfarinna ára“, og fylgdi því eftir með vinsælli setningu úr atvinnulífinu „Það er ekki tekið tillit til sérstöðu greinarinnar“. Maður hrekkur bara í kút! Getur verið að þetta sé rétt? Við skulum skoða nokkrar af fullyrðingum Emils.

Greinin er mjög þjökuð af kjarasamningum undanfarinna ára“.

Bendir Emil á að laun hafi hækkað 1. apríl sl. og eigi aftur að hækka 1. janúar nk. Samkvæmt gögnum Verk Vest um laun í þessum geira er yfirgnæfandi meirihluti starfsfólks að vinna á lágmarkstaxta.

Samtals hafa lægstu laun hækkað um 32% á síðastliðnum fimm árum, enda hefur sérstök áhersla verið lögð á að verja þá sem eru á lægstu launum eins og raunin er í ferðaþjónustu og veitingageiranum.

Hæstu launin á Norðurlöndunum í veitingarekstri á Íslandi“.

Hér er um villandi uppslátt að ræða, en það kemur alls ekki fram hvort laun séu há eða lág til hvers og eins starfsmanns, bara heildar-launakostnaður brotinn niður á uppgefna veltu sem segir ekki mikið um laun starfsmanns á plani. Þar að auki er skattheimta til Íslenska ríkisins sem er reiknuð út frá launagreiðslum talin til launakostnaðar.

Álagsgreiðslur til starfsfólks væru hlutfallslega háar!

Varðandi sérstöðu greinarinnar er vísað til þess að hátt hlutfall vinnutíma væri á álagstíma (á kvöldin og um helgar) þegar aðrir atvinnurekendur geti látið vinna á daginn. Hið rétta er að mikið tillit er tekið til sérstöðu greinarinnar. Almennt verkafólk fer á yfirvinnukaup þegar dagvinnutímabili lýkur, en veitingamenn hafa heimild til að ráða fólk til vaktavinnu og greiða vaktaálög í stað yfirvinnu. Fyrir kvöld-vinnu á virkum degi fær veitingamaðurinn 41,25% afslátt af álagsgreiðslu þeirri sem aðrar starfsgreinar þurfa að greiða.

Námsmenn í aukavinnu fái hlutfallslega hærri laun en fólk sem gerir þetta að ævistarfi

Vaktavinna, kvöld-, helgar- og næturvinna ber álagsgreiðslur af ástæðu. Óreglubundinn vinnutími er talinn meira slítandi, heilsuspillandi og erfiðari en reglubundin dagvinna auk þess sem það skapar óhagræði fyrir fjölskyldufólk. Þar af leiðir er meira álag á starfsfólk sem vinnur óreglulega og þess vegna þarf að greiða hærri laun fyrir vinnu utan hefðbundins dagvinnutíma. Þetta á við hvort sem um er að ræða fastráðið starfsfólk eða starfsfólk í tilfallandi tímavinnu. Þannig að ekki er alveg ljóst hvernig þessi mikli mismunur sem Emil talar um kemur til.

80% starfsfólks í veitingageiranum er í hlutastarfi

Þessi staðreynd vísar til þess að talsverður sveigjanleiki sé fyrir veitingamenn að manna aðeins þá tíma sem þörf er á mannskap. Þetta ætti að skila aukinni hagræðingu og teljast til ávinnings frekar en hitt.

„Veitingageirinn hefur tekið fullan þátt í uppbyggingu þessa samfélags eftir efnahagshrunið 2008“

Hér á landi hafa allir sem ekki eru í „svarta hagkerfinu“ lagst á eitt við uppbyggingu samfélagsins eftir hrun, hvort sem litið er til veitingamanna eða þeirra sem starfa í greininni. Eins og fyrr segir, þá eiga veitingamenn undir högg að sækja vegna þess ástands sem skekur heiminn þessa dagana og eiga þeir mikla samúð skilið vegna þess. Samt er ekki heiðarlegt hjá Emil að kenna stöðunni upp á launakostnað vegna starfsfólks á plani sem eru að gera allt sitt besta, starfsfólki sem er ekki í krossferð gegn atvinnurekendum.

Emil benti réttilega á að ferðaþjónustan á Íslandi myndi ekki lifa án veitingageirans og undirstrikar með því mikilvægi veitingamanna. Höfum líka í huga að veitingageirinn lifir ekki án starfsfólks, við þurfum að vinna saman til að lifa af sem heild.

Deila