Translate to

Fréttir

Fátækt, misskipting, réttindabarátta innflytjenda og samstaða rauði þráðurinn í ræðum dagsins á Ísafirði

Finnbogi Sveinbjörnsson í ræðustól Finnbogi Sveinbjörnsson í ræðustól
Agnieszka M. Tyka í ræðustól Agnieszka M. Tyka í ræðustól

Baráttufundir verkalýðsfélaganna á Ísafirði og Suðureyri tókust mjög vel og var óvenju góð mæting á báðum stöðum. Á Ísafirði var gengið frá Alþýðuhúsinu með Lúðrasveit Tónlistaskólans í broddi fylkingar niður í Edinborgarhúsið þar sem baráttufundur stéttarfélaganna var haldinn. Húsfyllir var á baráttufundunum í Edinborg og í Félagsheimilinu á Suðureyri og var frábært að sjá hve mörg stéttarfélög gengu undir eigin merkjum að þessu sinni.

Í fyrsta skipti á Vestfjörðum og jafnvel í fyrsta sinn á Íslandi var haldin þrumandi 1.maí ræða á pólsku. En Agnieszka M. Tyka starfsmaður hjá Verk Vest á Ísafirði fór yfir stöðu pólskra innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði. Aga bar saman aðstæður á íslenskum vinnumarkaði og þeim pólska og benti á að pólverjar væru lang fjölmennasti hópur innflytjenda eða rúm 38%. Kom fram í máli Ögu að pólskir innflytjendur væru almennt orðnir meðvitaðri um réttindi sín og vissu að verkalýðsfélögin væru til staðar fyrir alla. Þar skipti tungumál, trúmál eða húðlitur engu máli, öll ættum við sömu réttindi. Dökka hliðin væri hinsvegar aukin misnotkun og brot á réttindum innflytjenda. Aga benti á að pólverjar kæmu hingað í leit að ákveðnu atvinnuöryggi, hér væri ekki sama kapphlaupið og í Póllandi þar sem þyrfti að vinna miklu meira til að ná endum saman. Hér væri borin meiri virðing fyrir verkafólki sem væri ólíkt því sem þekkist í Póllandi. Þá minnti Aga á að pólski innflytjendur hefðu ákveðið að búa hér og væru því hluti af íslensku samfélagi og eigi því sömu réttindi og aðrir.

Ræðu Ögu á pólsku má lesa hér.

Formaður verk Vest Finnbogi Sveinbjörnsson var aðalræðumaður dagsins á Ísafirði en aukin skattpíning, skerðingar og misskipting gagnvart verkafólki var rauði þráðurinn í ræðu Finnboga. Benti Finnbogi á hvernig markvisst væri unnið að því að safna auði á fárra hendur og þar nytu fjármagnseigendur dyggrar aðstoðar stjórnvalda. Einnig sagði Finnbogi ljóst af samtölum við stjórnvöld og vegna aukinnar hörku í samskiptum við atvinnurekendur þyrfti félögin að búa sig undir erfiðan samningsvetur. Bæta þyrfti duglega í verkfallssjóði stéttarfélaganna þar sem allt benti til harðra átaka á vinnumarkaði. Einnig kom fram í ræðu Finnboga að í raun ætti verkafólk enga málsvara inn á Alþingi og nú væri kominn tími til að verkafólk þjappaði sér saman þannig að raddir þess myndu heyrast inn á Alþingi. Fjármagnseigendur og aðrir hagsmunahópar ættu sitt bakland á Alþingi en ekki verkafólk, það sæist best á virðingarleysi ríkisstjóna gagnvart verkafólki undanfarin áratug.

Ræðu Finnboga má lesa hér

Deila