Fréttir

Fullur sigur í baráttunni við Fæðingarorlofssjóð

Alþýðusambandið hefur ítrekað gert kröfu til þess að Fæðingarorlofssjóður leiðrétti greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi sem urðu fyrir ólögmætum skerðingum vegna rangrar túlkunar sjóðsins á lögunum um fæðingar- og foreldraorlof. Um málið er fjallað i nýútkomnum fréttamolum ASÍ.  Efni málsins er í sem stystu máli það að 28. ágúst 2013 sendi umboðsmaður Alþingis frá sér álit, þar sem fram kemur að túlkun Fæðingarorlofssjóðs á lögunum um fæðingar- og foreldraorlof og útreikningur sjóðsins á tekjuviðmiðum og greiðslum þegar einstaklingar taka fæðingarorlof hluta úr almanaksmánuði en eru í starfi hinn hlutann hafi verið rangur.

Þessi niðurstaða umboðsmanns hefur ekki verið vefengd. Ljóst er að með framgöngu sinni hefur Fæðingarorlofssjóður haft umtalsverðar fjárhæðir af fjölda launafólks með ólögmætum hætti. Alþýðusambandið tók málið margoft upp á vettvangi Vinnumálastofnunar, þar sem Fæðingarorlofssjóður er vistaður, haustið 2013 og síðan við velferðarráðuneytið bæði formlega og óformlega. Fæðingarorlofssjóður og Vinnumálastofnun létu sér hins vegar ekki segjast og höfnuðu ítrekað að gera nokkuð í málinu og báru fyrir sig sjónarmið og rök sem að engu var hafandi.

Sú staðreynd að Alþýðusambandið hefur haldið málinu gangandi allan tíman og hvergi kvikað frá því að bætt verði úr óréttlætinu hefur nú leitt til þess að hluti þeirra foreldra sem voru hlunnfarnir af Fæðingarorlofssjóði fengu leiðréttingu í lok síðasta árs og þeir sem eftir eru eiga að fá greiðslur á næstu vikum. Jafnframt liggur fyrir að Fæðingarorlofssjóður mun láta af ólögmætri framkvæmd sinni í þessum efnum eftirleiðis.

Deila