þriðjudagurinn 24. september 2013

Gegn svartri atvinnustarfsemi

Hjalti Tómasson
Hjalti Tómasson

Meðal margra verkefna stéttafélaganna er að sinna eftirliti með svartri atvinnustarfsemi.

Þetta eftirlit er samstarfsverkefni ASÍ og Samtaka atvinnulífsins með vísan í lög frá Alþingi frá árinu 2010.

Eitt af meginhlutverkum stéttafélaganna, fyrir utan að semja um lágmarks kaup og kjör,  er að gæta hagsmuna félagsmanna sinna að öðru leiti, til dæmis að passa upp á að farið sé eftir gildandi lögum og samningum gagnvart félagsmönnum. Einn hluti þess er að sporna gegn svartri atvinnustarfsemi.


Svört atvinna skaðar alla þegar öllu er á botninn hvolft. Hvort það er launþegi sem ákveður að vinna svart eða launagreiðandi sem bíður starfsmönnum svarta vinnu þá veldur það undantekningarlaust því að launum er haldið niðri, samkeppnisstaða skekkist og undirboð valda því að fyrirtæki geta boðið þjónustu á verði sem önnur fyrirtæki geta ekki keppt við. Í flestum tilvikum næst þessi lækkun með því að greiða lægri laun þó öðruvísi geti litið út í fljótu bragði.

Laun sem greidd eru undir borðið, ef svo má segja, kunna að vera hærri en lágmarkskjör kjarasamninga segja til um. Það er hinsvegar í fæstum tilvikum reiknað með launatengdum gjöldum og mótframlögum vinnuveitanda í ýmsa sjóði svo sem lífeyrissjóði, menntasjóði, orlof er ekki reiknað ofan á laun og svo mætti áfram telja. Oftar en ekki er líka farið fram á vinnuframlag sem er langt umfram það sem kjarasamningar kveða á um.


Gróflega áætlað má segja að til að óuppgefin laun nái lágmarkskjörum þarf að leggja 70-75% ofan á útreiknaða lágmarkstaxta. Við hjá stéttafélögunum höfum ekki séð þessi 70% á þeim launum sem við höfum haft afskipti af. Nær væri að við tölum um 30% ofan á taxta sem þýðir að sá sem vinnur svart er að afsala sér 40% launa sinna og þá er, eins og áður segir, eingöngu miðað við lágmarkstaxta. Að auki er launþegi að afsala sér þeirri tryggingu sem felst í ákvæðum kjarasamninga um veikindi eða slys. 

Launþeginn afsalar sé því að hafa aðgang að sameiginlegum sjóðum svo sem menntasjóðum, sjúkrasjóðum, hann afsalar sér rétti til uppsagnarfrests og síðast en ekki síst, hann afsalar sér þeirri vernd sem felst í aðild að kjarasamningi og aðstoðar stéttafélagsins ef upp rís ágreiningur vegna launa eða annarra kjara. Og þess má geta að sá sem ekki hefur gefið upp laun á heldur ekki rétt á greiðslum úr atvinnuleysistryggingarsjóði. Merkilegt nokk, þetta kemur ýmsum á óvart sem til stéttafélaganna leita eftir að hafa fengið neitun frá Vinnumálastofnun. Þó nokkuð er um að fólk komi með sárt ennið og spyrji okkur hvernig það eigi að fara að því að lifa launalaust. Eina ráð okkar í þeim tilvikum er að beina fólki á félagsþjónustu sveitarfélaganna.


Starfsmenn stéttafélaganna sinna þessu eftirliti af hálfu ASÍ. Undir eftirlitið falla fyrirtæki í byggingariðnaði og mannvirkjagerð, verslun og þjónustu, veitingahúsa- gisti og ferðaþjónustu, gaðyrkju og ræktun nytjajurta, farþegaflutninga á landi og rafiðnaði, svo eitthvað sé nefnt. Eftirlitinu er þannig háttað að eftirlitsfulltrúar fara um félagssvæðið og heimsækja vinnustaði sem falla undir samkomulagið sem fyrr er greint frá og biðja um svokölluð Vinnustaðaskírteini.

Lögin frá 2010 kveða á um að í ákveðnum strfsgreinum ber atvinnurekanda að útbúa þessi skírteini og skal þeim framvísað ef eftirlitsfulltrúar fara fram á. Auk þess kveða lögin á um að eftirlitsfulltrúar eigi að hafa eftirlit með því að farið sé eftir þeim kjarasamningum sem í gildi eru. Það felur í sér að hægt er að fara fram á að atvinnurekandi eða launamaður gefi ákveðnar upplýsingar um kaup og kjör. Teknar eru stikkprufur af starfólki sem er á staðnum og þær bornar saman svo sem við skilagreinar fyrirtækjanna, upplýsingar vinnumálastofnunar og einnig hefur Ríkisskattstjóri aðgang að þeim upplýsingum sem aflað er.


Markmiðið er, eins og segir orðrétt í 2. grein laganna; að tryggja að atvinnurekendur á innlendum vinnumarkaði og starfsmenn þeirra fari að gildandi lögum, reglugerðum og kjarasamningum.

Þeir sem vilja afla sér frekari upplýsinga um þessi lög og samkomulag ASÍ og Samtaka atvinnulífsins er bent á að fara inn á www.skirteini.is Þar er að finna allar upplýsingar fyrir atvinnurekendur og launþega.

Sá misskilningur hefur stundum komið upp að með þessu séu stéttafélögin að taka að sér hlutverk skattalögreglu. Það er alrangt enda er markmið laganna mjög skýrt og afmarkað.


Svört atvinnustarfsemi er meinsemd sem allir tapa á til lengri tíma litið. Fyrirtæki, launafólk og samfélagið í heild sinni tapar á því að sumir telja í lagi að fara á svig við þá samtryggingu sem við höfum valið okkur sem þjóð.

Sem betur fer þá er stór meirihluti fyrirtækja og launþega meðvitaður um ábyrgð sýna og vill hafa þessa hluti í lagi. Of stór hluti virðist hinsvegar ekki gera sér grein fyrir skaðanum sem þetta veldur. Ef miða má við ágiskanir ríkisskattstjóra um umfang svartrar atvinnustarfsemi á Íslandi þá er ljóst að skaðinn er mikill og við getum spurt okkur hvort við höfum virkilega efni á að haga okkur með þessum hætti.

Burt með svarta vinnu!

 

Hjalti Tómasson, eftirlitsfulltrúi ASÍ

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.