fimmtudagurinn 1. nóvember 2012

Góður gangur í fiskvinnslunámskeiðum

Hluti af starfsfólki Drangs á fiskvinnslunámskeiði
Hluti af starfsfólki Drangs á fiskvinnslunámskeiði
1 af 2
Kjarasamningsbundin fiskvinnslunámskeið á félagssvæði Verk Vest eru í góðum farvegi undir styrkri stjórn Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Vel hefur tekist til og er gott samstarf við fiskvinnslufyrirtæki um tilhögun námsins. Byggist það á að geta sett upp styttri námsþætti með skömmum fyrirvara ef upp koma dauðir dagar í vinnslunum. Ekki er að heyra annað á þeim sem sótt hafa námskeiðin að þetta fyrirkomulag leggist vel í mannskapinn í stað þess að sitja heila viku á skólabekk. Nú eru í gangi námskeið á suðurfjörðum Vestfjarða hjá fiskvinnslu Odda á Patreksfirði, Þórsbergi á Tálknafirði einnig á ströndum hjá Drangi á Drangsnesi og hjá Fiskvinnslu Íslandssögu á Suðureyri ásamt því að blönduð námskeið hafa verið haldin í húsnæði Fræðslumiðstöðvarinnar á Ísafirði. Ágætlega hefur gengið að sinna kennslu þrátt fyrir miklar vegalengdir, en veðrið þessa dagana er aðeins að setja strik í reikninginn. Formaður Verk Vest var t.d á Drangsnesi í gær þrátt fyrir frekar óspennandi ferðaveður, blindu og leiðinda færð á köflum.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.