Translate to

Fréttir

Innköllun aflaheimilda og arðinn til fiskverkafólks

"Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga lýsir stjórnvöld ábyrg fyrir fjöldaatvinnuleysi fiskverkafólks verði hótanir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) um útflutning starfa í fiskvinnslu að veruleika.  

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi líta á óveiddan fisk sem einkaeign sem þeir hafi heimild til að ráðstafa að vild og véla þannig með lífsviðurværi heilu byggðarlaganna. Hótanir forsvarsmanna fyrirtækja í sjávarútvegi um flutning á störfum fiskverkafólks úr landi er birtingarmynd hins frjálsa framsals aflaheimilda. Slíkum hroka verða stjórnvöld að mæta af fullri hörku og innkalla aflaheimildir. Stjórn krefst þess að strax verði gerðar viðeigandi ráðstafanir til að verja störf í fiskvinnslu. Það er fiskverkafólkið sem skapar fiskvinnslum hin raunverulegu verðmæti.

Stjórn félagsins krefst áræðni stjórnvalda í ákvarðanatöku svo tryggja megi að réttlát skipting arðs til starfsfólks verði að veruleika. Stjórnvöld eiga að láta Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi skila arðinum til fiskverkafólks og það strax!"

Deila