mánudagurinn 19. nóvember 2012

Jólabaksturinn 20% dýrari en í fyrra

Þær bökunarvörur sem verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á þann 13. nóvember sl. hafa hækkað í verði frá sambærilegri könnun sem gerð var í nóvember í fyrra hjá Bónus, Krónunni, Nettó, Fjarðarkaupum, Hagkaupum og Nóatúni. Áberandi eru miklar verðhækkanir í öllum vöruflokkum hjá öllum verslunum. Vinsæl bökunarvara eins og Ljóma smjörlíki hefur hækkað um 12-18%, Pillsbury hveiti hefur hækkað um 8-20% og Dr. Oetker rauð kokteilber hafa hækkað um 7-22%.

Miklar verðhækkanir

Næstum allar bökunarvörurnar sem bornar eru saman hafa hækkað í verði. Sem dæmi um mikla hækkun má nefna t.d. Steeves mabel sýróp 250 ml. sem hækkaði um 23% úr 397 kr. í 489 kr. hjá Nettó, um 21% úr 496 kr. í 598 kr. hjá Nóatúni, um 20% úr 395 kr. í 475 kr. hjá Bónus, um 20% úr 396 kr. í 476 kr. hjá Krónunni, um 13% úr 476 kr. í 539 kr. hjá Hagkaupum og um 12% úr 578 kr. í 645 kr. hjá Fjarðarkaupum. Af öðrum vörum má nefna t.d. Nóa Síríus 56% súkkulaði sem hefur hækkað um 12% hjá Krónunni, um 10% hjá Nettó, um 8% hjá Fjarðarkaupum, um 7% hjá Bónus, um 6% hjá Hagkaupum og um 5% hjá Nóatúni. Kötlu kardimommudropar hafa hækkað um 42% hjá Fjarðarkaupum, 20% hjá Krónunni, um 20% hjá Nettó, um 19% hjá Nóatúni, um 17% hjá Bónus og um 15% Hagkaupum. Hægt er að skoða verða á einstaka vörum í könnuninni á heimasíðu ASÍ.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.