fimmtudagurinn 29. maí 2014

Kampi ehf. tilkynnir lokun vegna hráefnisskorts

Starfsfólki rækjuverksmiðjunnar Kampa ehf. á Ísafirði var tilkynnt um 5 vikna lokun vegna hráefnisskorts á fundi með stjórnendum verksmiðjunnar síðdegis í gær. Í tilkynningu sem fyrirtækið sendi til Verk Vest og Vinnumálastofnunar í morgun segir orðrétt:

"...Útlit á hráefnisöflun í sumar er ekki gott og þar vegur þyngst að væntanlega verður ráðgjöf Hafró um 5.000 tonna veiði á úthafsrækju útaf Norðurlandi náð í sumar sem þýðir að sett verður á veiðibann sem mun líklega ná yfir stóran hluta júli og allan ágúst. Nú þegar hefur verið sett veiðibann á rækjuveiðar við Snæfellsnes þar sem ráðgjöf Hafró hefur þegar verið náð. Ennfremur er útlit fyrir að erfiðara verði með hráefnisöflun erlendis frá og Kampi er ekki með neitt fast í hendi núna sem hægt er að byggja á fyrir sumarið. Því hefur þessi ákvörðun um lokun í sumar verið tekin. "

Verk Vest hefur ítrekað bent á ábyrgð stjórnvalda er viðkemur stöðu rækjuvinnslu í fjórðungnum með breytingum á úthlutun veiðiheimilda á rækju. Félagið hefur varað við þeirri stöðu sem gæti komið upp og er nú orðin að veruleika ef breytinarnar næðu fram að ganga. Hefur félagið gert svo í ályktunum og opinberri umræðu ásamt bréfaskrifum til þingmanna Norðvestur kjördæmis án þess að brugðist hafi verið við með hagsmuni starfsfólks að leiðarljósi. Hátt í 40 starfsmenn sem koma að rækjuvinnslu á Ísafirði verða því án atvinnu í 5 vikur frá 11. júlí til 18. ágúst. Ekki hefur fengist staðfest að vinnslustöðvun verði hjá Hólmadrangi á Hólmavík vegna hráefnisskorts þetta sumarið.

 

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.