Translate to

Fréttir

Komið að leiðréttingu fyrir þá lægst launuðu !

Starfsgreinasambandið gerir þá kröfu til stjórnmálamanna að loforð í aðdraganda kosninga um eflingu velferðarkerfisins, hækkun lægstu launa innan kerfisins og leiðréttingu kynbundinna launa standist. Innan aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins  er fjöldi fólks, aðallega konur, sem vinnur við ræstingar og umönnun á ríkisstofnunum og stofnunum sem háðar eru ríkisframlagi. Þetta starfsfólk hefur tekið á sig kjaraskerðingar síðustu ár í formi lækkaðs starfshlutfalls og hófsamra launahækkana miðað við verðbólgu.
 

Stór hluti þessarar stéttar hefur ekki orðið var við neitt launaskrið og lækkað starfshlutfall hefur ekki leitt af sér færri verkefni heldur hefur starfsfólki verið gert að hlaupa hraðar fyrir lægri laun.Þá getur reynst erfitt að bæta sér upp skert starfshlutfall með annarri vinnu og því oft og tíðum um hreina kjaraskerðingu að ræða. Það er takmarkað hvað fólk getur lagt á sig og afleiðingar niðurskurðar síðustu ár eru farnar að koma fram í veikindum sem birtist í auknu álagi á sjúkrasjóði verkalýðsfélaganna. Þetta aukna álag hefur orðið til þess að margir sjúkrasjóðir þurfa að endurskoða úthlutun til félaga og skerða réttindi þeirra.

 

Flóabandalagið (Efling, Hlíf og Verkalýðs—og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis) lét gera könnun á raunverulegum tekjum sinna félaga og kom þá í ljós að 21% svarenda voru með 200 þúsund krónur eða minna í dagvinnulaun í ágúst síðastliðnum, þ.e. áður en síðustu kauphækkanir komu til framkvæmda. Ef talan er greind eftir kynjum þá voru 27% kvenna með laun undir 200 þúsund og 15% karla. Ungt fólk er þarna í meirihluta. Ef þessar tölur eru skoðaðar út frá starfsgreinaum þá voru 40% þeirra sem unnu við ræstingar með innan við 200 þúsund krónur í dagvinnulaun, aðrir stórir hópar eru umönnun og mötuneyti. Ef skoðuð eru meðaltalslaun dagvinnu þá eru tekjulægstu hóparnir í störfum á sviði umönnunar, ræstinga auk leiðbeinenda, sem sagt stór hluti þess hóps sem sækjir laun sín í opinbera sjóði.

 

Það skal engan undra að þetta er einmitt sá hópur sem er ósáttastur við sín laun og hefur mestar áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni sökum lágra launa. Um 29% þeirra sem eru með heildartekjur undir 200 þúsundum hafa þurft að leita aðstoðar vegna fjárhagslegrar stöðu sinnar á síðastliðnum 12 mánuðum. Þetta er sá hópur sem býr síst í eigin húsnæði (fjórðungur býr í leiguhúsnæði og fjórðungur í foreldrahúsum) en greiðir að meðaltali 115.358 krónur í húsaleigu. Þær kannanir sem hafa verið gerðar á Norðurlandi og Austurlandi gefa vísbendingar um svipaða stöðu þar.

 

Það er ekki sæmandi fyrir ríki og sveitarfélög að kaupa vinnu einstaklinga svo lágu verði að fólk geti ekki séð fyrir sér. Það er því fagnaðarefni að stjórnmálamenn ætli að nýta svigrúm komandi ára til að forgangsraða í þágu þeirra stétta sem halda uppi velferðarkerfinu.

Deila