Fréttir

Kröfur verkafólks réttmætar - Sendum láglaunagrýlu SA heim !

Trúnaðarráð Verk Vest kom saman til fundar í gærkvöldi til að fara yfir viðbrögð SA við kröfugerð verkafólks. Fundarmenn voru sammála um að næsta skref í stöðunni væri að vísa deilunni til sáttasemjara þar sem SA menn hefðu hafnað að eiga viðræður við forystufólk verkalýðshreifingarinnar um réttmætar og sanngjarnar kröfur sem lagðar hafa verið fram. Mjög góð og málefnaleg umræða fór fram um stöðuna og vinnuna framundan, var trúnaðarráðið sammála um að senda frá sér eftirfarandi ályktun.

"Trúnaðarráð Verk Vest harmar ábyrgðarleysi Samtaka atvinnulífsins ( SA ) með því að hafna alfarið réttmætum kröfum verkafólks um kjarabætur og möguleika til að lifa af 40 stunda vinnuviku. Verkafólk á dagvinnu töxtum hefur vart til hnífs og skeiðar á meðan mikið launaskrið eykur velsæld hátekjufólks.

Í nútímasamfélagi er óásættanlegt að neyðast til að vinna óhóflega yfir- og aukavinnu til að ná endum saman. Almennt launafólk á sér vart líf utan veggja vinnustaðar á meðan atvinnurekendur viðhalda óbreyttri láglaunastefnu. Börn verkafólks hafa ekki sömu tækifæri og þeirra efnameiri til þátttöku í tómstunda- og íþróttaiðkun af sömu ástæðu.

Aukin misskipting er alvarlegt þjóðfélagsmein þar sem þeir ríku verða ríkari á meðan þeir efnaminni eiga að bera birgðarnar og axla ábyrgð. Á þessari meinsemd verður samfélagið að vinna bug með samhentu átaki. Sendum láglaunagrýlu SA heim og stöndum vörð um réttmætar launaröfur verkafólks.

Við viljum líka eiga líf !"

Deila