föstudagurinn 10. janúar 2014

Nýtilkomnar verðhækkanir dregnar til baka

Frá trúnaðarráðsfundi hjá Verk Vest
Frá trúnaðarráðsfundi hjá Verk Vest

Á fundi trúnaðarráðs Verk Vest sem haldinn var fyrr í vikunni ræddi formaður félagsins þá ótrúlegu ósvífni að blekið á kjarsamningum væri varla þornað þegar fréttir væru farnar að berast af hækkunum á vöruverði og þjónustu. Tók hann þar sem dæmi miklar hækkanir á komugjöldum á heilsugæslustöðvar sem hann sagði vera úr algjörum takti við þær samræður sem hefðu átt sér stað við fjármálaráðherra í aðdraganda kjarasamninga. Nú væri verið að gera tilraun til stöðugleika í samfélaginu og að ríkisstofnanir færu fremstar í flokki með hækkanir væri algjörlega óþolandi og ólíðandi. Slíkt væri ekki til að auka tiltrú fólks á verkefninu.

Í gær sendi Alþýðusamband Íslands bréf til þeirra fyrirtækja sem hafa hækkað verð hjá sér undanfarið með áskorun um að draga þær nú þegar til baka. Viðbrögðin hafa verið góð og vonandi verður framhald þar á.

 

N1, Emmessís, Kaupfélag Skagfirðinga og Bílastæðastjóður hafa dregið hækkanir sínar til baka og nokkur fyrirtæki hafa tilkynnt um að þau muni ekki hækka verð þ.m.t. Góa, Matfugl, Flúðasveppir. Hagkaup og Bónus hafa auk þess gefið út yfirlýsingu um að þau muni lækka verð á fjölmörgum vörum í verslunum sínum.

 

Þessu ber svo sannarlega að fagna og halda ótrauð áfram og benda á það sem vel er gert!
 
ASÍ mun áfram senda bréf til þeirra fyrirtækja sem við fáum ábendingar um að hafi eða ætli að hækka verð hjá sér. Þeir sem ekki bregðast við áskorun okkar lenda á svörtum lista sem við birtum eftir helgi.

 

Í dag, föstudag, verður opnuð undirsíða á – vertuaverdi.is undir yfirskriftinni – Við hækkum ekki - þar sem fyrirtæki geta sent inn yfirlýsingu og nöfn þeirra munu í framhaldinu birtast á lista á síðunni.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.