Translate to

Fréttir

Óvissuástand hjá starfsfólki Þórsbergs eftir uppsagnir

Mynd. fiskifrettir.is Mynd. fiskifrettir.is

Fulltrúar Verk Vest ásamt pólskum túlki voru boðuð á starfsmannafund í fiskverkuninni Þórsbergi á Tálknafirði í gær. Tilefni fundarins var hópuppsögn starfsmanna vegna óvissu um áframhald rekstrar. Í tilkynningu sem félaginu barst föstudaginn 28. ágúst kemur fram að 29 manns í fiskvinnslu ásamt 4 sjómönnum verði sagt upp stöfum frá og með 31. ágúst. Áður hafði áhöfninni á Kópnum BA 175, sem er línuskip í eigu fyrirtækisins, verið sagt upp störfum. Á fundinum kom fram að forsvarsmenn fyrirtækisins væru búnir að leita allra leiða til að tryggja áframhaldandi rekstur en það hefði ekki tekist og því væri ákvörðun um rekstrarstöðvun tekin með tilheyrandi uppsögnum.

Fulltrúar stéttarfélagsins með aðstoð túlks fóru mjög vel yfir réttarstöðu starfsmanna vegna uppsagnarinnar ásamt því að leiðbeina um næstu skref. Fram kom á fundinum að launagreiðslur væru tryggðar út uppsagnarfrest og verða laun greidd til starfsmanna með óbreyttum hætti þó engin vinnsla fari fram.

Á Tálknafirði búa um 290 manns og hefur Þórsberg verið burðarás í atvinnulífi bæjarins því er ákvörðun um rekstrarstöðvun Þórsbergs einnig gríðarlegt áfall fyrir sveitafélagið. En mjög stór hluti atvinnubærra einstaklinga í sveitafélaginu mun að óbreyttu verða atvinnulaus í byrjun desember ef ekkert greiðist úr í rekstri fiskvinnslu á staðnum. 

  

Deila