Eftir úrskurð Félagsdóms um ólögmæti verkfallsboðunar hjá Rafiðnaðarsambandinu var ljóst að  endurskoða yrði sameiginlega verkfallsboðun samninganefndar SGS. Niðurstaða okkar var að endurtaka atkvæðagreiðslur og hvert félag fyrir sig myndi afla verkfallsheimilda hjá félagsmönnum á viðkomandi félagssvæði. Þann 28. mars samþykkti Trúnaðarráð Verk Vest tillögu um að hefja undirbúning allherjaratkvæðagreislu um verkfallsboðun. Kjörskrár fyrir aðalkjarasamning og hótel- veitinga og ferðaþjónustusamning liggja fyrir og verða kjörgögn send til félagsmanna í lok vikunnar. Kosningin verður rafræn og mun hvert félag tilkynna niðurstöður í atkvæðagreislunni þegar þær liggja fyrir. Áætlað er að kosningin hefjist  13. apríl kl. 08:00 og ljúki á miðnætti þann 20. apríl. Ef allt gengur eftir munu aðgerðir hefjast í lok apríl mánaðar.

Því miður hafa forsvarsmenn SA frekar lagt áherslu á að lagaflækjur og tækniatriði en að ná samningum um réttmætar kröfur verkafólks. Þeir hafa með þessu kallað eftir harðari viðbrögðum frá launafólki. Við verðum að sýna að okkur er alvara annars verður ekki tekið mark á kröfum okkar. Eina tilboðið sem við höfum fengið eru 7 - 9.000 króna launahækkun! Viljum við sætta okkur við þannig tilboð? 

Kæri félagsmaður, ég hvet þig eindregið til að hugsa þig vel um og bregðast síðan hratt við og kjósa JÁ með verkfalli.

Sameinuð náum við árangri, sundruð fáum við ekkert.

Baráttukveðjur

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður verkalýðsfélags Vestfiðringa

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.