Translate to

Fréttir

Skattsvik í ferðaþjónustu

Í nýjustu fréttamolum sem ASÍ hefur sent út til aðildarfélaga er til umfjöllunar nýútkomin skýrsla Rannsóknarstofnunar atvinnulífsins sem ber heitið " Skattsvik í ferðaþjónustu - Umfang og leiðir til úrbóta ". Í skýrslunni er bent á að virðisaukaskattskerfið er um margt flókið þegar kemur að ferðaþjónustunni og sama gildir um þætti er snúa að leyfisveitingum tengt þessari starfsemi. Þá er því haldið fram að sökina af skattsvikum í ferðaþjónustu megi að nokkru rekja til þess að launafólk þrýsti á um svört laun sem knýi fram „þörf um að selja framhjá tekjuskráningu til að eiga svarta peninga til launagreiðslna“.

Tillögur skýrsluhöfunda um úrbætur byggja síðan á þessari greiningu. Það verður að teljast furðulegt að í skýrslunni er ekkert byggt á upplýsingum um umfangsmikil skattsvik, m.a. í ferðaþjónustunni, sem aflað hefur verið með samstarfsverkefni ASÍ, SA og ríkisskattstjóra með yfirskriftinni "Leggur þú þitt af mörkum?". Reyndar virðist sem skýrsluhöfundar þekki alls ekki það verkefni eða þá þekkingu sem þar gefur verið aflað. Í skýrslunni er heldur ekki gerð grein fyrir þeim upplýsingum sem liggja fyrir um kennitöluflakk í greininni sem í reynd er ekkert annað en svikastarfsemi, m.a. til að komast undan greiðslu opinberra gjalda.

Ekki er ástæða til að efast um að virðisaukaskattskerfið og fyrirkomulag leyfisveitinga í ferðaþjónustu sé flókið og megi einfalda og bæta. Þá þekkjast dæmi þess að einstaklingar óski eftir að fá að vinna svart. Það er hins vegar dapurleg niðurstaða og stenst ekki skoðun að skella skuldinni af viðamiklum undanskotum undan greiðslu í sameiginlega sjóði landsmanna á framangreinda þætti og fría um leið „brotamennina“, þ.e. stjórnendur þessara fyrirtækja, allri ábyrgð.
Deila