Translate to

Fréttir

Skráð atvinnuleysi 1% í maí

Frétt af vef ASÍ:
Skráð atvinnuleysi í maí var 1% sem er sama hlutfall og í apríl. Að meðaltali voru 1.739 manns skráðir atvinnulausir í mánuðinum eða 22 fleiri en í fyrra mánuði. Atvinnuástandið hefur verið gott síðustu misseri en líklegt er að það versni er kemur fram á haust.

  • Milli mánaða er breyting á atvinnuleysi lítil sem engin. Þetta er ólíkt því sem gjarnan gerist á vorin þegar árstíðabundin sveifla í efnahagslífinu veldur því að atvinnuástand batnar á þessum tíma. Á hitt ber að líta að atvinnuástandið hefur verið gott síðustu misseri og vart við því að búast að það batni í sumar og líklegt að það versni er kemur fram á haust. Dregið hefur úr fjölgun starfa og víða hefur verið tilkynnt um uppsagnir.
  • Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði atvinnulausum um 54 milli mánaða en fækkaði um 32 á landsbyggðinni. Mest var fækkunin á Suðurnesjum (23 manns). Líkt og undanfarna mánuði þá er ástandið nú einna verst á Suðurnesjum og Norðurlandi eystra. Atvinnuleysi á landsbyggðinni er tiltölulega háð árstíðasveiflu (minnst á sumrin, mest yfir veturinn) en atvinnuleysi á höfuðborgarsvæði er háðara almennum efnahagsaðstæðum.
  • Atvinnuleysi meðal karla minnkaði milli mánaða, mælist nú 0,8% en var 0,9% í apríl og er það einkum á landsbyggðinni sem atvinnuleysið minnkar meðal karla. Atvinnuleysi kvenna er 1,3% líkt og í apríl, en hefur þó aukist töluvert meðal kvenna á höfuðborgarsvæðinu en minnkað lítillega meðal kvenna á landsbyggðinni.
  • Alls voru 420 erlendir starfsmenn skráðir inn á vinnumarkaðinn í apríl eða 19 fleiri en í fyrra mánuði en mun færri en í sama mánuði í fyrra. Af þeim sem bættust við nú koma 382 frá nýjum ríkjum evrópska efnahagssvæðisins og 38 utan þess.

Atvinnuleysi eftir störfum og menntun:

Atvinnuleysi er sérstaklega áberandi meðal verkafólks en einnig meðal þjónustu- og verslunarfólks. Verkafólk er um 14% af vinnuaflinu en 37% af atvinnulausum. Þjónustu- og verslunarfólk er um 21% af vinnuaflinu en 28% af atvinnulausum. Skrifstofufólk er um 7% af vinnuaflinu en 9,5% af atvinnulausum.

Atvinnuleysi er minna áberandi meðal stjórnenda, sérfræðinga, sérmenntaðra starfsmanna, iðnaðarmanna, sjómanna og bænda.

Atvinnuleysi virðist vera nátengt menntun. Þannig er fólk sem aðeins hefur grunskólapróf um 35% af vinnuaflinu en 65% af atvinnulausum. Þeir sem eru með framhaldsnám eru um 44% af vinnuaflinu en 24% af atvinnulausum. Þeir sem eru með háskólamenntun eru um 21% af vinnuaflinu en aðeins 11% af atvinnulausum.

Því er við þessa frétt að bæta, að í dag, 16. júní, eru 13 skráðir atvinnulausir á Vestfjörðum; 5 karlar og 8 konur.

Deila