Translate to

Fréttir

Skýrar reglur gilda um aksturs- og hvíldartíma ökumanna sem starfa við snjómokstur og hálkuvarnir

Mynd.strandablogg Mynd.strandablogg

Alþýðusamband Íslands í samstarfi við Vegagerðina hefur gefið út minnisblað um aksturs- og hvíldartíma ökumanna við snjóruðning og hálkuvarnir í vetraþjónustu, en nokkur óvissa hefur verið um það hvaða reglur gilda við slíka vinnu.  Ástæðan er einkum sú að gefnar hafa verið óskýrar og andstæðar upplýsingar frá Samgöngustofu og Vegagerðinni um þetta efni. Af þessum ástæðum hefur nokkuð borið á því að starfsmenn einstakra þjónustuaðila hafa verið látnir vinna óhóflega langar vinnutarnir án hléa og hvíldartíma, þannig að hvorki samræmist sjónarmiðum um vinnuvernd eða umferðaröryggi. Hefur þá gjarnan verið vísað til þess að einyrkjar sem eru með þjónustusamning við Vegagerðina viðhafi slíka starfshætti og því sé öðrum nauðsyn að gera slíkt hið sama til að vera samkeppnisfærir við útboð vegna vetrarþjónustunnar. Þessi staða er einkar bagaleg fyrir þá ökumenn sem starfa við vetrarþjónustu á vegum og skapað óvissu um réttindi þeirra og starfsskilyrði.

Af hálfu Vegagerðarinnar hafa verið tekin af öll tvímæli um að hvað varðar störf ökumanna við snjóruðning og hálkuvarnir gildir reglugerð nr. 605/2010 um aksturs- og hvíldartíma ökumanna með síðari breytingum. Skiptir þá engu hvort um er að ræða launamenn eða einyrkja. Því til staðfestingar er í útboðsgögnum Vegagerðarinnar vegna vetrarþjónustu vísað til reglugerðarinnar með ótvíræðum hætti.

Ef ástæða er til að ætla að verið sé að brjóta á aksturs- og hvíldartímareglunum er hvatt til þess að hafa samband við þjónustustöð eða vaktstöðvar Vegagerðarinnar. Þá skiptir ekki síður máli að það eru starfsmennirnir sjálfir sem geta verið sóttir til sakar fyrir brot á reglum, þótt ákvörðunin um skipulag vinnunnar sé alfarið atvinnurekandans.

Nánari upplýsingar veitir Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, halldor@asi.is.

Af hálfu Vegagerðarinnar sér Einar Pálsson, verkfræðingur, einar.palsson@vegagerdin.is um útboð og samninga vegna vetrarþjónustunnar og túlkun á þeim.

Deila