Translate to

Fréttir

Starfsgreinasamband Íslands horfir til framtíðar

Framhaldsþingi SGS lauk á fimmta tímanum í gær með kosningu nýrrar framkvæmdastjórnar. En undanfari þeirra kosninga voru skipulagsbreytingar á starfsemi sambandsins sem voru samþykktar eftir töluverðar umræður fyrr um daginn. Á þinginu lágu fyrir tillögur að breyttu skipulagi, en helsta breyting á skipulagi sambandsins er að auka vægi formannafunda og fækka í framkvæmdastjórn sambandsins úr 13 í 7. Með þessum hætti er verið að auka lýðræði innan þessa stærsta landssambands ASÍ. Góð vinna hafði farið fram í aðildarfélögum SGS í aðdraganda þessara skipulagsbreytinga þar sem stéttafélögin víðsvegar af landinu höfðu komið með tillögur sem síðan voru mótaðar á þann veg sem þingið samþykkti. Segja má að veigamesta breytingin sem lögð var fram á þinginu hafi verið að fjölga formannafundum og urðu nokkur átök um þessar tillögur sem voru að lokum samþykktar. Þannig verða 4 formannafundir að lágmarki það ár sem ekki er reglulegt þing og 3 formannafundir að lágmarki það ár sem reglulegt þing SGS er haldið. Nokkra athygli vakti á þinginu að þegar lögð var fram breytingartillaga á nýjum lögum SGS þess eðlis að öll aðildarfélög fengju sent eintak af fundargerð framkvæmdastjórnar að nokkur fjöldi þingfulltrúa lagðist gegn slíku. Þrátt fyrir þessa andstöðu náði tillagan fram að ganga. Eins og áður hefur komið fram lauk þinghaldinu með kosningu nýrrar 7 manna framkvæmdastjórnar SGS.

Nýja framkvæmdastjórn skipa eftirtaldir einstaklingar:

Formaður:
Björn Snæbjörnsson, Eining-Iðja

Varaformaður:
Hjördís Þ. Sigurþórsdóttir, AFL Starfsgreinafélag

Meðstjórnendur:
Aðalsteinn Á. Baldursson, Framsýn stéttarfélag
Halldóra Sveinsdóttir, Báran stéttarfélag
Kolbeinn Gunnarsson, Vlf. Hlíf
Signý Jóhannesdóttir, Stéttarfélag Vesturlands
Sigurður Bessason, Efling stéttarfélag

Varamenn:
1. Sigurrós Kristinsdóttir, Eflin Stéttarfélag
2. Ásgerður Pálsdóttir, Stéttarfélagið Samstaða
3. Finnbogi Sveinbjörnsson, VerkVest
4. Vilhjálmur Birgisson, Vlf. Akranes
5. Magnús S. Magnússn, Vlf. og sjómannafélag Sandgerðis

Nánar er sagt frá þinginu á heimasíðu SGS.
Deila