Translate to

Fréttir

Suðurlandsskjálftinn - Ölfusborgir lokaðar a.m.k. til 13. júní

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að öflugur jarðskjálfti reið yfir Suðurland á dögunum. Upptök hans voru skammt frá Hveragerði, en þar er orlofsbyggðin Ölfusborgir þar sem Verk-Vest á eitt og hálft hús. Töluvert tjón varð í Ölfusborgum í þessum náttúruhamförum og hefur stjórn byggðarinnar ákveðið að þar verði lokað a.m.k. til 13 júní. Mat á tjóninu liggur ekki fyrir enn, en eins og sjá má af meðfylgjandi myndum úr húsi félagsins var aðkoman ófögur. Enn sem komið er hafa þó ekki komið í ljós teljandi skemmdir á húsunum sjálfum, en innanstokksmunir voru á tjá og tundri og leirtau og annað af því tagi fékk slæma úteið.

Við munum segja frá því hér á vefnum þegar byggðin verður tilbúin til útleigu, vonandi sem fyrst.

Það er lán í óláni að þeir sem fara í Ölfusborgir í sumar þurfa varla að óttast stóran skjálfta. Hann er kominn og farinn.

Deila