Translate to

Fréttir

Sveitastjórnir á Vestfjörðum hvattar til að halda aftur af gjaldskrárhækkunum

Verkalýðsfélag Vestfirðinga sendi í síðustu viku tölvupóst til sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum þar sem sveitastjórnir eru hvattar til að leggja sitt lóð á vogaskálar þess að hægt verði að byggja grunn undir stöðugleika og sátt á vinnumarkaði. Í bréfinu eru sveitastjórnir hvattar til að halda aftur af gjaldskrárhækkunum og fara þar fram með góðu fordæmi. Rétt er að benda á að Reykjavíkurborg hefur ákveðið að falla frá boðuðum gjaldskrárhækkunum og hvatt önnur sveitarfélögt til að gera slíkt hið sama. Einungis hefur borist svar frá einu sveitarfélagi sem segir að sveitafélagið hyggist ekki hækka gjaldskrár fyrir árið 2014 í takt við verðlagshækkanir sem orðnar hafa að undanförnu. Jafnframt er því svarað að hvatning félagsins verði höfð til hliðsjónar við endanlega vinnslu gjaldskráa fyrir næsta ár. 

Verkalýðfélag Vestfirðinga beinir því til félagsmanna að þeir láti félagið vita verði þeir varir við hækkanir á gjaldskrám sveitafélaga. Ef nást á raunveruleg sátt um kaupmáttaraukningu ráðstöfunartekna verða ALLIR að koma að því verkefni, ekki eingöngu alþýða landsins.
Deila