Translate to

Fréttir

Trúnaðarráð hafnar nýgerðum kjarasamningi sjómanna

Nýr kjarasamningur sjómanna í Verkalýðsfélagi Vestfirðinga sem var undirritaður aðfararnótt mánudagsins 15. nóvember hefur verið kynntur fyrir trúnaðarráði félagsins. Eftir kynningu samningsins var ljóst að sá tæknilegi ómöguleiki væri kominn upp að undirritað samningsskjal væri í raun ekki kjarasamningur félagsins. Auk þess var ljóst að upphafshækkanir í kauptryggingu og fatapeningum voru ekki þær sömu og í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands. Munaði þar tugi prósenta eða allt að 26% sem sjómenn í Verk Vest fá ekki verði samningurinn samþykktur. Fulltrúi í trúnaðarráði lagði því fram þá tillögu að trúnaðarráð hafnaði samningnum vegna þeirra ágalla sem á honum eru. Eftir efnislega umræðu var tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá er undirritaður kjarasamningur bindandi samkvæmt lögum og verður að fara í atkvæðagreiðslu meðal sjómanna í Verk Vest. Tillaga trúnaðarráðs hefur þar engin bindandi áhrif á samninginn. Lögmaður félagsins hefur staðfest að svo sé sömuleiðis fulltrúar viðsemjenda.

Trúnaðarráð félagsins samþykkti að viðhafa rafræna atkvæðagreiðslu og skulu niðurstöður liggja fyrir eigi síðar en 14. desember kl.20:00. Trúnaðarráð samþykkti einnig að vera ekki með formlega kynningarfundi en býður áhöfnum upp á að halda kynningarfundi í samráði við skrifstofur félagsins á Ísafirði og Patreksfirði. Félagsmönnum verða send kjörgögn með lykilorði til að kjósa líkt og var gert í kosningu um verkfallsboðunina. Verði samningurinn samþykktur er ljóst að komin er upp sú staða að sjómenn á Vestfjörðum eiga ekki lengur sinn sjálfstæða kjarasamning. Verði samningurinn felldur hefst verkfall að nýju kl.20:00 þann 14.desember næstkomandi.   

Deila