Translate to

Fréttir

Verslunar- og skrifstofufólk slítur viðræðum og hefur undirbúning aðgerða

Samningafundur fulltrúa VR og Landssambands ísl. verzlunarmanna annars vegar og Samtaka atvinnulífsins hins vegar hjá ríkissáttasemjara í gær, mánudaginn 27. apríl, var árangurslaus. Farið var yfir stöðuna á fundi stjórnar og trúnaðarráðs VR í gærkvöldi og næstu skref rædd. Undirbúningur verkfallsaðgerða er hafinn. 

Deilu VR / LÍV og SA var vísað til ríkissáttasemjara þann 17. apríl síðastliðinn. Fyrsti fundur hjá sáttasemjara var á þriðjudag í síðustu viku og annar fundurinn var haldinn í dag. Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR og varaformaður LÍV, sagði að loknum fundinum í dag að lítið hafi þokast í samkomulagsátt og að ekkert benti til þess að samningar væru í sjónmáli. Fundurinn hafi því reynst árangurslaus, og var sú afstaða félagsins bókuð í fundargerð með vísan í 3 mgr. 15. gr. laga nr. 80 frá 1938.

"Við sjáum því miður fátt annað í stöðunni en að hefja atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun. Stéttarfélög taka ekki ákvörðun um undirbúning aðgerða af léttúð. Það vill enginn fara í verkfall og við boðum ekki til þess nema enginn annar kostur sé í stöðunni. Og í dag sjáum við engan annan kost." sagði Ólafía að loknum fundi trúnaðarráðs sem haldinn var í gærkvöld.

Í Verk Vest eru um 250 félagsmenn sem starfa samkvæmt aðalkjarasamningi LÍV og Samtaka atvinnulífsins.

 

Deila