Translate to

Fréttir

Virðum rétt afgreiðslufólks í jólaösinni

Nú fer í hönd einn mesti annatími afgreiðslu fólks í verslunum þegar jólaösin fer að þyngjast. Í desember eykst álag á verslunar og afgreislufólki mjög mikið og því vert að hafa í huga nokkur mikilvæg atriði er varða réttindi þessarra starfsmanna. Þá beinir félagið þeim tilmælum til verslunar og afgreiðslufólks að halda vel utan um skráningu vinnu tíma.

Frídagar yfir hátíðarnar eru:
Eftir kl. 12 á aðfangadag (stórhátíðardagur)
Jóladagur (stórhátíðardagur)
Annar í jólum (almennur frídagur)
Eftir kl. 12 á gamlársdag (stórhátíðardagur)
Nýársdagur (stórhátíðardagur)

Ekki er vinnuskylda á þessum dögum og skulu launþegar halda sínum dagvinnulaunum óskertum. Auk þess má minna á að fyrsta vinnudag eftir jól skal dagvinna í verslunum hefjast kl. 10.

Matar- og kaffitímar

Hádegismatartími:  Á bilinu ½ - 1 klst. (háð samkomulagi).  Þessi matartími telst ekki til vinnutíma. Starfsfólk þarf að vinna a.m.k. 5 klst. til að öðlast rétt til matartíma í hádeginu. 

Kvöldmatartími:  1 klst. ( á milli kl. 19 og 20) og telst til vinnutíma. Ef kvöldmatartíminn eða hluti hans er unninn skal greiða þann hluta með tvöföldu kaupi. Réttur til kvöldmatartíma miðast við a.m.k. 4,5 klst. vinnu.

Kaffitími: 35 mínútur á dag hjá afgreiðslufólki, (15 mín hjá skrifstofólki) miðað við fullan vinnudag.  Er veitt í beinu hlutfalli við vinnutíma starfsfólks í hlutastörfum.

Ef unnið er lengur en til kl. 22:00 skal veita annan 20 mínútna kaffitíma á tímabilinu kl. 22:00 - 22:20.  Á Þorláksmessu er heimilt að veita þann kaffitíma á bilinu kl. 21:40 - 22:20.

Daglegur hvíldartími

Á hverjum sólarhring á starfsmaður rétt á 11 klst. hvíld. Óheimilt er samkvæmt lögum að skipuleggja vinnu á þann hátt að vinnudagurinn sé lengri en 13 klst.

Frávik og frítökuréttur: Ef 11 klst. hvíld næst ekki skal veita hana síðar. Þannig safnast svokallaður frítökuréttur upp. Fyrir hverja klst. sem 11 tíma hvíldin skerðist um öðlast starfsmaður 1,5 klst. í dagvinnu í frítökurétt.





 

Deila