Translate to

Pistlar

1. maí ávarp á Suðureyri

 

Verið Velkomin og til hamingju með alþjóðlegan baráttudag verkafólks.

 

Nú þegar skollin virðist vera á alþjóðleg kreppa á fjármálamörkuðum heimsins og við íslendingar förum ekki varhluta af því ástandi, spyr maður sig hvar hinn almenni launamaður standi í þeim ólgusjó.

 

Undanfarin ár hafa fjármálaspekingar landsins verið í útrás og allt virtst vera á fljúgandi ferð allir að græða meir í dag en í gær og almúginn hefur hrifist með og talið sig vera að upplifa slíkt góðæri að það væri í lagi að fara á smá neyslufyllerí líka  -   þó innistæða væri ekki alltaf fyrir hendi.

 

Síðan kemur í ljós að fyrirmyndirnar í útrásinni, óskabörn þjóðarinnar sem allir hrifust með voru ekki eins góðar fyrirmyndir og við héldum og fóru langt fram úr sjálfum sér í græðgi og útþennslustefnu og drógu almenning með sér á asnaeyrum.Eins og ritstjóri bresks vikublaðs kemst að orði "íslendingar hafa verið á skemmtiferð á alþjóðafjármálamörkuðum undanfarin ár

Og nú er sú skemmtiferð að fá ömurlegan endi"

 

En hver situr svo uppi með sárt ennið annar en hinn almenni launamaður sem er undirseldur lánadrottnum með húsnæði sitt - bílalán og önnur neyslulán sem rjúka nú upp úr öllu valdi og öll þjónusta hækkar í kjölfarið.

 

Auðmenn landsins koma nú til ríkisins og segja "Bjargið bönkunum"  bönkunum sem þeir fengu á silfurfati frá ríkinu á útsöluverði.

 Þegar allt var á blússandi ferð þurftu þeir enga aðstoð almennings við að eyða milljarða hagnaði sínum og deila gróðanum með fólkinu í landinu.

 

En hvar á launamaðurinn málsvara?  Kemur ríkið til bjargar  Jóni og Gunnu sem missa húsið sitt í óðaverðbólgu þar sem launin duga ekki til framfærslu eða kemur ríkið bara til hjálpar þeim sem rakað hafa saman gróða á kostnað almennings og lenda í ógöngum  sökum ábyrgðarleysis í fjárfestingum og lántökum erlendis í svokallaðri útrás .

 

Í febrúar sl. voru gerðir kjarasamningar við launafólk á almenna vinnumarkaðnum í þeim var gert sérstakt átak  til að hækka lægstu launin og er nú dagvinnutryggingin

145 þúsund krónur sem ekki er hægt að hrópa húrra fyrir þó hænuskref hafi náðst í rétta átt. Þessi launahækkun er nú horfin í verðhækkunum undanfarið og búast má við átökum á vinnumarkaði ef fram heldur sem horfir.

 

Það mikla óréttlæti sem birtist í því að enginn greinarmunur er gerður á skattlagningu lágra launa sem ekki duga til framfærslu og ofurlauna hátekjufólks er þjóðinni til skammar.

 

Af lægstu launum eru nú teknar 18 þúsund krónur á mánuði.  Miðað við verðlag og framfærslukostnað  þyrftu lægstu laun að lágmarki að vera 200 þúsund krónur á mánuði og skattleysismörkin líka.

 

Undanfarin ár hafa skattar verið að lækka á hátekjufólki meðan fólk með lágar og meðaltekjur hefur verið látið bera hækkandi skatta .

Þetta var staðfest af fyrrverandi ríkisskattstjóra fyrir stuttu síðan í viðtali og gagnrýndi hann þessa þróun harðlega.

 

Ég held að þorri íslendinga vilji ekki sjá aukna misskiptingu á Íslandi og vilji ekki hafa stéttaskiptingu

Í landinu með tilheyrandi óréttlæti eftir búsetu, þjóðerni, starfi né stöðu.  Ef bilið á ekki að halda áfram að breikka milli ríkra og þeirra sem varla ná endum saman

Þarf þjóðarsátt stjórnvalda-atvinnurekanda og samtaka launafólks í landinu , þar sem stöðugleiki er tryggður og verðbólgudraugurinn er kveðinn niður og lágmarks framfærsla tryggð.

Launafólk hefur lagt sitt af mörkum til stöðugleika með hógværum kjarasamningum, nú verða atvinnurekendur og stjórnvöld að tryggja kaupmáttinn.

 

Við þurfum áfram öryggisnet í samfélaginu fyrir þá sem minna mega sín   - en ekki er þörf á öryggisneti fyrir stóreignafólk og fagfjárfesta sem farið hafa glannalega í lántökum og fjárfestingum erlendis og eru nú að súpa seyðið af því- þeir eiga að leggja í sína varasjóði sjálfir.

 

Almenningur á ekki alltaf einn að þurfa að borga brúsann og herða sultarólina þegar kreppir að í þjóðfélaginu meðan sumir fleyta bara rjóman ofan af og vilja ekki viðurkenna eigin óráðssíu.

 

Ég ætla hér að lokum að lesa gamla vísu um vorið eftir

Stein Steinarr , en hún er svona. 

 

Ó sláðu hægt mitt hjarta

Og hræðstu ei myrkrið svarta.

Með sól og birtu bjarta

Þér birtist vor á ný.

Og angan rósa rauðra,

Mun rísa af gröfum dauðra.

Og vesæld veikra og snauðra

Mun víkja fyrir því.

 

Um daga ljósa og langa

Er ljúft sinn veg að ganga

Með sól og vor um vanga

Og veðrin björt og hlý.

Þá rís af gömlum grunni

Hvert gras í túni og runni.

Hún, sem þér eitt sinn unni

Elskar þig kannske á ný.

 

Launamenn stöndum saman um réttlátt samfélag .

Og aftur - til hamingju með daginn.

Deila