Pistlar

Af vef SGS 25. júní: Horfur í atvinnumálum – ákvörðun heildarkvóta

Það er blika á lofti í atvinnumálum. Eins og við er að búast fækkar störfum í mannvirkjagerð á næstunni. Líklegur samdráttur einkaneyslu mun einnig leiða til minni umsvifa í ýmsum greinum. Bæði Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið spá nú umtalsverðri aukningu atvinnuleysis á næstu tveimur árum. Við þetta bætast áhyggjur vegna slæmrar stöðu sjávarútvegs.

 

Í sjómannadagsræðu, 4. þ.m. ræddi sjávarútvegsráðherra ráðgjöf Hafró um verulega skerðingu hámarksafla fyrir næsta fiskveiðiár og boðaði að ákvörðun um kvóta yrði tekin í samráði við m.a. hagsmunaaðila. Fyrirhuguð ákvörðun mun hafa mikil áhrif á tekjur þeirra sem starfa í sjávarútvegi, ákvörðun sem mun einnig hafa áhrif á stöðu þjóðarbúsins og atvinnustig. Ráðherra hvatti til málefnalegrar umræðu.

 

Innan ASÍ eru það einkum SGS, (vegna fiskvinnslu- og flutningagreinanna) og Sjómannasambandið sem hafa mestra hagsmuna að gæta vegna skerðingu aflaheimildanna. Gera má ráð fyrir að umræðurnar snúist ekki aðeins um ráðgjöf Hafró heldur einnig um kosti og galla kvótakerfisins (þ.e. kerfis framseljanlegs einstaklingsbundins kvóta) svo og um félagsleg úrræði fyrir þá sem verst verða úti ef til verulegra skerðingar hámarksafla kemur.

 

 

Þann 6. júní s.l. var fjallað um niðurskurð aflaheimilda hér á síðunni og þar sagði m.a:

 

,,Knýi nauðsyn fiskverndarsjónarmiða til niðurskurðar á afla, eins og vísindamenn leggja til, verður að tryggja, með öllum ráðum, að það bitni sem minnst á fiskvinnslu innanlands og það er hægt. SGS minnir á að verulegur aflahlutur er fluttur í gámum til vinnslu í útlöndum, - vinnslu sem vel er hægt að sinna hér heima!  Því ríður á að stilla saman strengi stjórnvalda, verkalýðshreyfingar og aðila í sjávarútvegi og vinnslu til þess að koma í veg fyrir atvinnuhrun í sjávarplássunum. Stoppa þarf útflutning á gámafiski og leita leiða til þess að auka veðmæti þess afla sem enn er veiddur hér á landi, m.a. með fullvinnslu innanlands." 

 

Matvælasvið  SGS átti fund með sjávarútvegsráðherra 25. júní s.l. um þessi málefni og áherslur SGS í því sambandi.

 

Stefna ASÍ

Miðstjórn ASÍ hefur nýlega samþykkt stefnu í sjávarútvegsmálum sem tekur á ofangreindum álitaefnum og hefur hagdeildar ASÍ tekið saman minnisblað, (dags. 20. þ.m.), til sérsambandanna og fer það hér á eftir:

 

,,Hvað varðar spurninguna um ráðgjöf Hafró:

  • Stefna ASÍ: „Stjórnvöld fara með eignarréttinn yfir auðlindinni í umboði þjóðarinnar. Þetta þýðir m.a. að þeim ber að ákveða heildarkvóta út frá vísindalegum niðurstöðum um afkomu stofna."
  • Tillaga um útfærslu: ASÍ styður það að algerlega verði farið að ráðgjöf Hafró um breytingu á aflareglu og skerðingu heildaraflamarks.

Hvað varðar spurninguna um kvótakerfið:

  • Stefna ASÍ: „Núverandi afskipti af sjávarútvegi (kvótakerfið) stuðlar í meginatriðum að hagkvæmri sókn í leyfilegan heildarkvóta."
  • Tillaga um útfærslu: ASÍ hafnar því að kvótakerfið (kerfi framseljanlegra kvóta) verði tekið upp. Á hinn bóginn styður sambandið að tekið verði á annmörkum kerfisins, sérstaklega þeim er snýr að leiguframsali. Vænleg leið til að taka á þeim vanda er að stórefla eftirlitsþátt fiskveiðistjórnunarkerfisins.

Hvað varðar spurninguna um félagsleg úrræði:

  • Stefna ASÍ: „Aðlögun  vegna atvinnuþróunar á að útfæra sem ferli er tryggi að sem flestir njóti ábata af breytingunum, hvort sem þær felast í hagræðingu, sameiningu fyrirtækja eða innleiðingu á nýrri tækni. Ferlið felist m.a. í virkri upplýsingamiðlun hagsmunaaðila, samráði og samningaviðræðum á öllum stigum breytinganna. Styrki /kostnað vegna aðlögunar á að útfæra með almennum aðgerðum gegnum skatta- og velferðarkerfið. Ef þörf er á sértækum aðgerðum eiga þær að vera tímabundnar, gagnsæjar, óframleiðslutengdar, miða að atvinnusköpun, vera árangursríkar m.t.t. kostnaðar og samræmdar við hið almenna velferðarkerfi."
  • Tillaga um útfærslu: ASÍ telur brýnt að því launafólki sem verður fyrir þyngsta högginu vegna aflasamdráttar verði komið til aðstoðar. Almennar aðgerðir skulu felast í því að tryggja hnökralausa framkvæmd nýrra laga um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir. Treysta þarf og efla þann þátt í starfsemi Vinnumálastofnunar, svæðisvinnumiðlana og símenntunarmiðstöðva sem lítur að náms- og starfsráðgjöf. Mikilvægt er að símenntun fyrir launafólk verði efld til muna og hún gerð markvissari. Slíkt þarf að gera út frá þörfum einstaklingsins fyrir aukna þekkingu og einnig út frá þörfum atvinnulífsins fyrir meiri og markvissari þekkingu og hæfni í starfi. Sértækar aðgerðir geta falist í því að tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta sé tímabundið lengt úr þremur mánuðum í sex. Mikilvægt að huga sérstaklega að því að tryggja rétt erlendra starfsmanna sem sumir hverjir kunna að njóta aðeins takmarkaðrar tryggingar. Þá hlýtur að koma til álita að opna svigrúm fyrir það að fólk njóti fullra tryggingabóta jafnhliða því sem það stundar viðurkennt nám eða þjálfun.

Greinargerð ASÍ

Þegar ákveðið var að ráðast í stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi árið 2003 var vonast til að staðbundin áhrif gætu orðið veruleg og leitt til þess að hjól atvinnulífsins á Austfjörðum færu af stað. Það var hins vegar vitað að áhrifin á hagkerfið í heild yrðu mjög misjöfn eftir því  hvort horft væri til skamms eða langs tíma.

 

Vitað var að til skamms tíma færðist mikill kraftur í íslenskt atvinnulíf. Eftirspurn eftir vinnuafli yrði meira en framboð innanlands. Atvinnuleysi yrði með minnsta móti. Kaupmáttur launa myndi vaxa.

 

En það var einnig vitað að til langs tíma yrðu áhrifin lítil. Þegar liði að lokum framkvæmdanna myndi draga úr eftirspurn eftir vinnuafli. Atvinnuleysi myndi aukast á nýjan leik.

 

Langtímaáhrifin gætu jafnvel orðið neikvæð ef ekki væri haldið vel á stjórnun efnahagsmála og þensla og ójafnvægi færi úr böndunum.

 

Mannvirkjagerð og fl.

Framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun og álver á Reyðarfirði er nú að mestu lokið. Öðrum verkefnum á sviði stóriðju og virkjana er flestum lokið eða u.þ.b. að ljúka (Reykjanesvirkjun, stækkun Norðuráls). Áfram verður þó unnið við Hellisheiðavirkjun og Svartsengi.

Störf beintengd þessum framkvæmdum töldu um 3.500 á haustmánuðum 2006. Ljóst er að þeim mun fækka niður í 4-500 á þessu ári og fram í upphaf árs 2008.

Á móti kemur að verið er að ráða í um 400 ný störf í hinu nýja áveri sem óðum er að auka framleiðslu sína. Fram eftir þessu ári verður líka þónokkur mannaflaþörf vegna ýmissa annarra byggingaframkvæmda. Þá má búast við að 2-300 ný störf verði til í ár vegna nýframkvæmda í samgöngumálum. Loks má nefna að horfur í ferðaþjónustu eru ágætar og líkur að starfsmönnum muni fjölga í sumar miðað við í fyrra.

 

Sjávarútvegur

Þenslan undanfarin ár hefur reynst útflutnings- og samkeppnisgreinum erfið, m.a. vegna hárra vaxta, sterkrar krónu og samkeppni um starfsfólk. Þetta á ekki hvað síst við um sjávarútveg. Þónokkur fiskvinnslufyrirtæki vítt og breitt um landið hafa átt í rekstrarörðugleikum á síðustu árum og þurft að segja upp starfsfólki.

 

Við þetta bætist slæmt ástand þorskstofnsins og ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar (Hafró) um verulega skerðingu heildaraflamarks næsta fiskveiðiár. Stærð veiðistofns er nú metinn nálægt sögulegu lágmarki og stærð hrygningarstofnsins er aðeins um helmingur þess sem talið er gefa hámarks afrakstur. Nýliðun síðustu sex árin hefur verið slök og meðalþyngd allra aldurshópa er í lágmarki. Miðað við óbreytta aflareglu þýðir þetta að heildaraflamark ætti að minnka úr 193.000 tonnum á yfirstandandi fiskveiðiári í 178.000 tonn á því næsta.

 

Að mati Hafró er ástand þorskstofnsins hins vegar það slæmt að ef miklar líkur eiga að vera á því að það takist að stækka stofninn þá sé nauðsynlegt að breyta hinni svokallaðri „aflareglu". Í stað þess að miða afla við 25% af viðmiðunarstofni mælir stofnunin með að miðað sé við 20% á næstu fjórum árum. Slík breyting myndi þýða að heildaraflamark á næsta fiskveiðiári yrði um 160.000 tonn. Stofnunin gengur enn lengra og mælir einnig með að sérstök regla um aðlögun að niðurskurði aflaheimilda verði afnumin. Slík breyting myndi þýða að heildaraflamark þorsks á næsta fiskveiðiári yrði aðeins um 130.000 tonn.

Ljóst er að ef farið verður að þessum tillögum mun það hafa áhrif á hagvöxt og atvinnuástand í landinu. Gera má ráð fyrir að útflutningsverðmæti sjávarafurða muni lækka um allt að 28 milljarða á ári. Að mati Hagdeildar ASÍ gætu áhrif slíks tekjumissi þýtt að hagvöxtur á þessu ári verði 1,2% (í stað 2,5% samkvæmt fyrri spá) og á næsta ári og 1,6% (í stað 3,3% samkvæmt fyrri spá). Hafa þarf í huga að margar aðrar atvinnugreinar eru að meira eða minna leyti háðar sjávarútvegi. Áhrif aflasamdráttar á hagvöxt eru því enn meiri en sem nemur beinum áhrifum af minni útflutningstekjum.

Erfitt er að áætla áhrifin á vinnumarkaðinn. Um 8.400 manns störfuðu við fiskveiðar og fiskvinnslu á síðasta ári og hefur þeim heldur farið fækkandi á síðustu árum. Það hefur sýnt sig í gegnum söguna að atvinnustig er mjög næmt fyrir breytingum á þorskafla. Áhrif aflasamdráttar nú geta verið nokkurn tíma að koma fram og er líklegt að þeirra verði ekki vart fyrr en á næsta ári. Ljóst er að áhrifin verða mest í litlum sjávarþorpum út á landi og þar sem starfandi eru lítil sjávarútvegfyrirtæki sem hafa litla burði til að bregðast við svo stórum skelli.

 

Byggðalög

Atvinnuleysi ársins 2006 var minna en árið áður, eða 1,3% miðað við 2,1% árið 2005. Atvinnuástandið endurspeglar mikil umsvif í landinu meðal annars vegna stóriðjuframkvæmda, almenns uppgangs í byggingariðnaði og grósku í mörgum atvinnugreinum eins og verslun og þjónustu.

Hins vegar varð atvinnuleysið á Suðurnesjum svipað á árinu 2006 og árið áður vegna brotthvarfs Varnarliðsins. Á Norðurlandi eystra minnkaði atvinnuleysið einnig minna en á landinu í heild. Uppsveiflan í þjóðfélaginu hefur því ekki skilað sér í sama mæli til þess landshluta.

 

Á hinn bóginn er athyglisvert hve atvinnuleysi mælist lágt á Vestfjörðum (1,2%) þrátt fyrir talsverða umræðu um erfiðleika í atvinnumálaum þar vestra. Það er því vert að skoða aðstæður þar nánar.

 

Vestfirðir

Um fjórðungur vinnuafls á Vestfjörðum starfar við sjávarútveg og hefur sú atvinnugrein mun meiri þýðingu þar en í öðrum landshlutum. Verulega dró úr atvinnuleysi á Vestfjörðum á árinu 2006 og var meðalatvinnuleysi ársins 1,2%. Ástandið hefur þó verið mjög erfitt í einstökum byggðakjörnum á svæðinu um lengri eða skemmri tíma. Viðvarandi atvinnuleysi hefur verið á Bíldudal og var allt að 14% atvinnuleysi þar á árinu.

 

Ljóst er að atvinnulífið vestra glímir við talsverðan undirliggjandi vanda. Í því sambandi hefur m.a. verið bent á einhæft atvinnulíf, tap aflaheimilda, erfiðar samgöngur, fólksfækkun o.fl.

Í nýlegri skýrslu Byggðastofnunar og Hagfræðistofnunar HÍ kom fram að á meðan hagvöxtur á landsvísu var 29% á tímabilinu 1998-2004 var hann neikvæður á Vestfjörðum um sex prósent. Þetta hefur haft í för með sér mikla fólksfækkun á svæðinu, en frá 1994 hefur fólki fækkað þar um 21%. Lítið atvinnuleysi skýrist þannig að hluta til af brottflutningi fólks út af svæðinu.

 

Sunnudaginn 12. mars var haldinn baráttufundur á Ísafirði undir kjörorðinu „Lifi Vestfirðir!". Samkvæmt fréttum vefritsins bb.is var hugur í Vestfirðingum er þeir fjölmenntu á fundinn. Greiðari samgöngur, bætur vegna samdráttar fiskveiðiheimilda og fullburða háskóli voru meðal krafna sem haldið var á lofti. Einn frummælanda skóf ekkert utan af hlutunum þegar hann sagði ,,heilsársbyggð á Vestfjörðum ekki eiga eftir nema tvo til þrjá áratugi ef ekki fengjust bætur fyrir þann samdrátt fiskveiðiheimilda sem orðinn væri".

 

Nefnd sem forsætisráðherra skipaði í framhaldi fundarins til að fjalla um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum hefur lokið störfum og skilað skýrslu með margvíslegum tillögum. Þær ganga m.a. út á að flýta framkvæmdum í samgöngu- og fjarskiptamálum og efla starfsemi opinberra stofnana á svæðinu. Einnig barst nefndinni rökstudd tillaga frá Íslenskum hátækniiðnaði um byggingu nýtísku olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum. Nefndin beinir því til sveitarstjórna á Vestfjörðum að taka þá tillögu til nánari skoðunar.

 

Í maí sl. tilkynntu eigendur fiskvinnslunnar Kambs á Flateyri að þeir hefðu ákveðið að hætta útgerð og fiskvinnslu og selja allar eignir félagsins. Um 120 manns starfa hjá fyrirtækinu, 65 í landvinnslu og um 55 við útgerð fimm báta. Þetta var augljóslega gríðarlegt áfall fyrir stað þar sem íbúafjöldinn er ekki nema um 300 og dregur um leið fram með skýrum hætti þá áhættu sem lítil samfélög með einhæft atvinnulíf búa við.

 

Hugsanlega mun samt rætast úr málum á Flateyri þar sem tilkynnt var í byrjun júní  að félagið Oddatá hefði ákveðið að  kaupa allar fasteignir og tæki Kambs á Flateyri. Vill félagið með kaupunum leiða uppbyggingu á margþátta starfsemi með aðkomu sem flestra aðila."

Deila