Translate to

Pistlar

Fjármálaráðherra ekki í tengslum við raunveruleikann !

Fjármálaráðherra ekki í tengslum við raunveruleika verkafólks Fjármálaráðherra ekki í tengslum við raunveruleika verkafólks
Sveitungar fjármálaráðherra í Verklýðsfélaginu Hlíf í Hafnarfirði hafa sent frá sér ályktun um lágmarkslaun vegna húsnæðis- og vaxtamála. Í ályktuninni kemur fram að útborguð lágmarkslaun væru kr106þús. en húsaleiga sé víða yfir þeirri upphæð, þá eru ótalin önnur útgjöld heimilanna. Það kemur fram í viðtali við fjármálaráðherra í 24 stundum að verkalýðshreyfingin komi gjarnan fram með óraunhæfar launakröfur, því er líka haldið fram að síðan róist hlutirnir og kröfurnar færist nær raunveruleikanum. Ef núverandi kjör eru sá raunveruleiki sem fjármálaráðherra ætlar launþegum að lifa af þá er hann sjálfur ekki í tengslum við kjör almennings í landinu.


Það að ætla verkafólki að færast nær raunveruleikanum með því að þiggja litla launahækkun er óskyljanlegt viðhorf hjá fjármálaráðherra sem er með um 8 föld lágmarkslaun verkamanns. Sú var tíðin að alþingismenn höfðu 1 ½ verkamannalaun í kaup sem gera þá í dag 187.500,- fjármálaráðherra ætti kannski sjálfur að færast nær raunveruleika verkafólks og reyna að lifa og brauðfæra fjölskylduna með þeim launum sem þar eru skömmtuð.  Í kröfugerð Verkalýðsfélags Vestfirðinga kemur fram að krafan um lágmarkslaun fyrir dagvinnu skuli vera 41,5% af grunnþingfararkaupi og fylgi síðan launaþróun þingfararkaups, en með því yrði launaþróun láglaunafólks tryggð.


Það eru ekki óraunhæfar kröfur verkalýðshreyfingarinnar að krefjast þeirra kjarabóta að launþegar í velferðarsamfélaginu séu með útborguð laun fyrir ofan fátækramörk. Það eru ekki óraunhæfar kröfur að fjölskyldum í landinu sé búinn sá grunnur að börn launþega hafi jafna möguleika til þátttöku í leikjum og tómstundum félaganna. Það eru ekki óraunhæfar kröfur að ætla stjórnvöldum það að taka skattaumhverfi launþega til gagngerra endurskoðunar þannig að það komi þeim sem minnst hafa til sem mestrar hagsbóta.


Launþegar hafa alltof lengi þurft að sætta sig við hrossalækningar þegar kemur að kjarabótum sem þeim eru ætlaðar. Hinn almenni launþegi er ekki lengur aflögufær um að standa einn undir velferðarsamfélaginu, þar verða fleiri að taka þátt og er ráðuneyti fjármála engin undantekning.

Deila