Pistlar

Fögnum breyttu hugarfari

Fyrr í vor hélt Vestfjarðarnefnd um atvinnumál á Vestfjörðum kynningarfund um störf sín þá s.l. 2 mánuði sem hún hafði starfað. Ekki fanst mér þá að félagsmenn Verkalýðsfélags Vestfirðinga fengju undir sig vænt hross til reiðar inn í framtíðina. Nokkuð bar á orðum um breytt hugarfar, bæði af hálfu hins opinbera og líka af hálfu okkar íbúa á Vestfjörðum. Frá því að þessum kynningarfundi lauk hefur dregið til tíðinda í atvinnumálum hér í fjórðungnum, og þá sérstaklega hér á norður svæðinu. Kanski má segja að þær hremmingar sem hér hafa átt sér stað hafi þurft til að opna augu ráðamanna þjóðarinnar fyrir þeim vanda sem sjávarbyggðir á Íslandi eru komnar í miðað við núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi í óbreyttri mynd.


Verkalýðshreyfingin hefur lengi varað við og bent á þann vanda sem steðjar að landvinnslu sjávarafurða. Má segja að markvisst hafi verið unnið að því að haga hlutum þannig að útgerðir sjá sér frekar hag í því að senda afla óunninn úr landi heldur en að landa honum til vinnslu hér á Íslandi. Að sjálfsögðu skapar þetta óöryggi í greininni og æ erfiðara er orðið að manna fiskvinnsluna þar sem atvinnuöryggi hefur ekki verið tryggt. Sama má segja að sé að gerast hjá sjómönnum, og er þá enginn munur á hvort um litlar eða stórar útgerðir er að ræða. Útgerðir sjá sér oft á tíðum frekar hag í því að leigja frá sér veiðiheimildir en að skip í þeirra eigu veiði þann afla sem er til skiftanna. Þetta skapar líka óöryggi hjá stétt sjómanna og er einn af þeim þáttum sem er þess valdandi að illa gengur að manna bæði báta og skip.


Það þarf að tryggja grunnatvinnuvegi okkar Vestfirðinga nægt hráefni til vinnslu, en ekki notast við fiskveiðistjórnunarkerfi sem hvetur útgerðir til að skammta fiskvinnslunni hráefni, en afleiðing þess er ótryggara atvinnuástand landvinnslunar. Það þarf að tryggja sjómönnum atvinnuöruggi allt árið um kring, og einn þáttur í því væri að stöðva frjálst framsal og leigu aflaheimilda. Það er löngu timabært að þeir sem hafa skapað hin raunverulegu verðmæti í sjávarútveginum fari að bera meira úr bítum, en þurfi ekki að lifa við lágmarkstaxta og lágt skiftaverð sjávarfangs.


Á Vestfjörðum þarf að efla grunngerð atvinnulífsins, bæði með eflingu menntunar í iðn-og faggreinum, þá þarf að efla rannsóknar- og vísindastörf þannig að það virki sem hvatning fyrir fólk til að setjast hér að. Þá þarf að efla ferðaþjónustu í fjórðungnum og hvetja til nýsköpunar og stuðla að vexti sprotafyrirtækja á þeim vettvangi. Það ber að fagna nýjum hugmyndum í atvinnumálum og hlúa að þeim sem þegar eru í gangi. Ef við Vestfirðingar ætlum að vera samkeppnisfærir um fólk sem vill setjast hér að, þá verðum við fyrst og fremst að geta sýnt fram á að hér sé gott atvinnuöryggi og framtíðarhorfur bjartar.


Svo ég víki aftur af þessum orðum "breytt hugarfar" þá er ekki annað að sjá og heyra en þetta breytta hugarfar sé að skila sér inn til ráðamanna þjóðarinnar. Ber þá einna helst að nefna þá viðhorfsbreytingu sem virðist vera í gangi hjá þingmönnum norvesturkjördæmis í sjávarútvegsmálum. Sjávarútvegsráðherra ásamt ráðherra byggðamála funduðu hér vestra fyrir stuttu, og var ekki annað að heyra á máli þeirra að nú væri lag til aðgerða og breytinga, þar væri fiskveiðistjórnunarkefi okkar Íslendinga ekkert undanskilið. Þá hefur sömuleiðis borið á gagnrýni einstakra þingmanna kjördæmisins í garð núverandi kerfis, sem gefur ákveðin fyrirheit um að nú sé breytinga að vænta sem myndi skjóta strykari stoðum undir sjávarbyggðir hringinn í kringum landið. Nú síðast á sjálfan þjóðhátíðardag okkar Íslendinga flytur forseti Alþingis hátíðarræðu hér á Ísafirði þar sem hann gagnrýnir opinberlega núverandi fiskveiðisjórnunarkefi af hörku, telur hann að ekki verði lengur unað við óbreytt ástand og gengur svo langt að tala um að kvótakerfið hafi mistekist. Þá gerði forsætisráðherra okkar þessi mál að umtalsefni í sinni hátíðarræðu þó svo að hann kvæði ekki eins sterkt að orði að um mistök væri að ræða.


Að lokum er vert fyrir okkur öll að staldra við það einstaka hugarfar sem stórútgerðarmaðurinn Einar Guðfinnsson í Bolungavík hafði gagnvart sínu samfélagi. Að það væri fólkið í samfélaginu sem hefði átt stærstan þátt í velgengni og uppbyggingu á hans öfluga sjávarútvegsfyrirtæki, því ætti það skilið að fá sinn hluta af þeirri verðmætasköpun sem átt hefði sér stað í fyrirtækinu, það væri því ekki hans að ráðstafa þeim verðmætum í burtu. Því segi ég, tileinkum okkur breytt hugarfar Vestfirðingum til hagsbóta, tryggjum atvinnu þeirra sem skapa hin raunverulegu verðmæti í sjávarútvegi okkar Vestfirðinga.

Finnbogi Sveinbjörnsson - formaður Verk Vest

Deila