Pistlar

Gerum Vestfirði að valkosti Nr. 1 með stórbættum kjörum á vinnumarkaði

Löndun tengist ekki frétt Löndun tengist ekki frétt

Ef við Vestfirðingar ætlum að vera samkeppnishæfir um fólk á vinnumarkaði verða vinnuveitendur að bjóða upp á mannsæmandi laun á öllum sviðum atvinnulífsins. Í komandi kjarasamningum verðum við Vestfirðingar að gera þá kröfu að laun á okkar atvinnusvæði verði samkeppnishæf við það sem gerist á suðvestur horninu. Ekki er hægt að búast við því að fólk flykkist hingað til starfa þegar stöðugt er klifað á því að hér séu meðallaun með því lægsta sem gerist á landinu. Það er af sem áður var þegar meðaltekjur á Vestfjörðum voru með því hæsta á landsvísu og fólk flutti almennt í velmegunina hér fyrir vestan.

 

Vestfirskir vinnuveitendur verða að gera sér grein fyrir því að með því að viðhalda láglaunastefnunni er sú hætta fyrir hendi að launfólk flytjist einfaldlega burt frá Vestfjörðum í leit að mannsæmandi launum. Á meðan þessi staða er er nánast viðvarandi í launaþróun hér í fjórðungnum getum við varla gert ráð fyrir því að manna þau störf sem okkur eru nauðsynlegt til að halda hjólum atvinnulífsins á Vestfjörðum gangandi.


Á almennum launamarkaði býr fólk við strýpuð taxta laun og nánast ekkert umfram það. Þetta á ekki síður við um þá sem hafa langskólamenntun að baki, þeir skila sér í æ minna mæli aftur í heimabyggð ekki síst vegna þeirra launaþróunar sem þar er í gangi. Hvernig ætlumst við til að fólk setjist hér að ef ekki eru í boði laun sem duga til mannsæmandi framfærslu?


Hér verður að koma til algjör hugarfarsbreyting við að koma launum í næstu kjarasamningum í það horf að reisn verði af. Með sameiginlegu átaki ber okkur öllum samfélagsleg skylda til að koma launaþróun á Vestfjörðum aftur í það horf að kjör á vinnumarkaði verði með því besta sem gerist á landsbyggðinni.

Vestfirðingar, komum fjórðungnum aftur í fremstu röð hvað launaþróun varðar, og tryggjum með því grunninn að traustari velferð okkar allra.

Finnbogi Sveinbjörnsson - formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Deila