Pistlar

Hátíðarræða Finnboga 1.maí 2011

Finnbogi í ræðustól í Edinborg Finnbogi í ræðustól í Edinborg
Haustið 2010 stóð launþegahreyfingin frammi fyrir einu erfiðasta verkefni sem hún hefur tekið sér á hendur í langan tíma. Þetta erfiða verkefnið var, og er enn  fimm mánuðum eftir að samningar losnuðu,  að endurnýja kjarasamninga á vinnumarkaði.

Verkefnið var ekki bara að endurnýja almenna kjarasamninga verkafólks, heldur var málum þannig háttað  að nánast allir kjarasamningar í landinu voru lausir á sama tíma og  því var  í mörg horn að líta og að mörgu að gæta.

Í ljósi ótryggs efnahagsástands, viðvarandi atvinnuleysi og erfiðleika á vinnumarkaði má segja að verkefnið væri nær óyfirstíganlegt.

Víðsvegar innan raða stéttarfélaganna var unnið mikið og öflugt starf við undirbúning kröfugerðar.  Þessi undirbúningur byggði á þátttöku félagsmanna um allt land.

Stéttarfélögin héldu því kjaramálaráðstefnur, kjaramálakannanir og vinnustaðafundi þannig að rödd félagsmannsins næði sem best fram við mótun kröfugerðarinnar.

Alls staðar var eftir því leitað að félagsmaðurinn legði sitt lóð á vogaskálarnar þannig að áherslur hans kæmu skýrt fram við mótun kröfugerðar. 

Þessi mikla og góða vinna lagði grunninn að kröfugerð launþega í aðdraganda kjarasamninga og var ljóst að ábyrgð samninganefnda var mikil við að framfylgja ítrustu kröfum félagsmanna.

Samninganefndum var líka ljós sú ábyrgð að allir þyrftu að ganga í takt, að sameina þyrfti ólíka hópa, hópa sem innbirgðis gerðu ólíkar kröfur til að ná sínum markmiðum fram.

Þegar slík staða kemur upp reynir á samtakamátt og samstöðu launþega. Þá reynir á að sem best gangi að miðla málum svo ólík sjónamið geti sameinast um það sem við öll viljum sækja, meiri velferð og aukinn kaupmátt.

Aukinn kaupmáttur hefur því verið rauði þráðurinn í kjaraviðræðum okkar við samtök atvinnurekenda. En aukinn kaupmáttur eru ekki bara fleiri krónur í umslagið.

Hafa verður í huga önnur atriði sem líka vega þungt. Þensla má ekki verða of hröð þannig að afleiðing hennar,  aukin verðbólga,  fari  úr böndunum og éti á skömmum tíma upp þann kaupmátt sem verið er að semja um.

Hjá samtökum atvinnulífsins breytist söngurinn ekkert,  á þeim bænum eru  kröfur verkafólks um launahækkanir alltaf út úr kortinu. Hvenær hafa launakröfur verkafólks talist raunhæfar í þeirra augum? Þeir segja okkur fara fram á þrefalt meiri launahækkanir en í nágranalöndunum og slíkt gangi einfaldlega ekki upp.

Mitt svar við þessu er einfalt, fyrst þarf að jafna laun og lísfkjör hér  á við það sem gerist í nágranalöndunum. Næsta skref væri síðan  að láta okkur hafa sömu launahækkanir og þar var samið um, þá loksins erum við að tala um sama hlutinn.

Það kom skýrt fram í áherslum við mótun kröfugerðar félagsmanna víðsvegar um land að megin tilgangur samningann yrði aukinn kaupmáttur og stöðugleiki á vinnumarkaði. Unnið yrði á atvinnuleysi með bráðaaðgerðum á vinnumarkaði með mannaflsfrekum aðgerðum sem myndu skapa fleiri störf.

Í kjaraviðræðum verður að líta á óþolinmæði sem lúxus sem við getum ekki leyft okkur þótt  ekkert virðist ganga. Með þolinmæði í kjaraviðræðum er ekki verið að gefa eftir eða veita afslátt af kaupkröfum félagsmanna.

Stundum er þessi þolinmæði gagnrýnd sem linkind við atvinnurekendur, forustan eigi að láta sverfa til stáls og það strax. Sigrar vinnast ekki með óðagoti eða illa ígrunduðum aðgerðum. Þegar illa gengur er þolinmæði dyggð. 

 

En í þeim viðræðum sem staðið hafa yfir í allan vetur og standa enn hefur reynt alveg gríðarlega á þolinmæðina.

Nú er svo komið að þolinmæði okkar er á þrotum. Landssambönd innan ASÍ hafa eitt af öðru verið að vísa kjaradeilum til ríkissáttasemjara og þau sem lengra eru komin eru þegar byrjuð að undirbúa aðgerðir. 

 

Sú staða sem er kominn upp í kjaraviðræðum að eitt aðildarfélag SA, Landssamband íslenskra Útvegsmanna, hefur tekið kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í gíslingu er algjörlega ólíðandi. Í mínum augum eru þetta ekkert annað en landráð, landráð gagnvart  verkafólki á Íslandi.

Verkafólk hefur ekkert haft um það að segja hvernig aflaheimildum á Íslandi hefur verið úthlutað. Verkafólk hefur ekki fengið arð þessum aflaheimildum, hefur ekki getað verslað með þær eða veðsett.

Af hverju ætti verkafólk að  vera beitt til að ná fram niðurstöðu sem er LÍÚ þóknanlegt ?  Svarið er einfalt, hagsmunasamtökin LÍÚ vija þessa ríkisstjórn frá og ætla beita launþegum fyrir sig til að ná fram niðurstöðu sem þeim er þóknanleg.  Það verður aldrei.

Það er með hreinum ólíkindum hve langt þessi sérhagsmuna hópur hefur komist með frekju og yfirgangi en nú er kominn tími til að stoppa þá af og nota til þess öll tiltæk ráð.

Á stundum sem slíkum er nauðsynlegt að þétta raðirnar og ráðast á ófæruna með samstöðuna að vopni. 

Það gerist eingöngu með því að forustan og fólkið hafi staðið þétt saman við undirbúning aðgerða.  Gleymum því ekki að það er fólkið í félögunum sem myndar þessa órofa heild sem samtök launþega eru.

Án þess hreyfiafls sem fólkið í félögunum er,  væri barátta forystunnar lítils virði.  Verum þess ávallt minnug að það er samtakamátturinn sem hefur skilað launafólki stærstu sigrunum.

Það er fólkið sem vinnur störfin sem finnur best hvar skóinn kreppir í kjarabaráttu launþega. Þangað eigum við í forusta launafólks að leita ráða þegar okkur rekur í vörðurnar í baráttunni við samtök atvinnurekenda.

Við sem erum í forystunni verðum og eigum að hlusta á það sem fólkið okkar hefur fram að færa.

Verum þess minnug hvert við sækjum styrkinn, hvar hugmyndir fæðast, fyrir hverju er verið að berjast og hvert ætlum við okkur í framtíðinni.

Launþegahreyfingin verður og á að virka sem samstæð heild. Heild þar sem allar skoðanir og hugmyndir eru jafn réttháar. Það er einmitt með slíku hugarfari sem launþegum mun hlotnast ríkuleg uppskera.

Uppskeru þar sem sigrar skila ávinningi inni í framtíðina.

Sá sem hér stendur hefur alltaf verið talsmaður samtöðu, verið talsmaður þess að með samstöðu og samtakamætti væru launþegum allir vegir færir, ég mun ekki hvika frá þeirri skoðun minni fyrr en í fulla hnefanna. 

Skipuleg barátta fyrir bættum kjörum,  í tæplega 100 ár,  ásamt órjúfanlegri samstöðu hinna vinnandi handa hefur skilað okkur þeim ávinningi sem við njótum í dag

En verum þess minnug að víðsvegar um heiminn standa verkamenn, enn í dag, í blóðugum átökum fyrir grundvallar mannréttindum, réttindum sem okkur hérna heima á Íslandi þykja alveg sjálfsögð en eru svo sannarlega ekki sjálfgefin.

Barátta verkafólks á Íslandi fyrir mannsæmandi réttindum hefur verið þyrnum stráð og á tíðum mjög hatrömm, í þeirri baráttu hefur reynt á þolinmæði og þrautseigju verkafólks.

Fæst gerum við okkur almennt grein fyrir því hverju áratuga löng barátta samtaka verkafólks hefur náð fram í velferðarmálum sem okkur þykja sjálfsögð í dag.

Undanfarna mánuði og vikur hefur mikið af kröftum verkalýðshreyfingarinnar farið í það að verja það sem áunnist hefur í gegnum tíðina.

Mikil orka hefur einnig farið í baráttu og strögl við ríkisstjórn landsins, ríkisstjórn sem kjörin var til að standa vörð um heimili landsmanna.

Ríkisstjórn sem verkalýðshreyfingin hefur gert samninga við.

Samninga um stöðugleika á vinnumarkaði, um bætt kjör til atvinnulausra, um úrlausn í skattamálum sem brennur hve mest á okkar fólki.

Hvaða réttlæti er í því að launþegi með rétt rúm 200 þús í mánaðarlaun skuli þurfa að greiða  tæplega þriðjung af tekjum í skatta og útsvar ?

Hvernig á slíkur einstaklingur að ná endum saman þegar allt hefur hækkað nema kaupið ?

Hann einfaldlega getur það ekki.

Stjórnvöld geta ekki endalaust ætlast til þess að almenningur í landinu sjái um að halda þjóðarskútunni á réttum kili.

Sótt er að launafólki úr öllum áttum, ekki eingöngu frá atvinnurekendum heldur hafa forstöðumenn ríkisstofnana og sveitarfélaga einnig gengið í lið með þeim sem seilast ansi langt í að skerða kjarasamningsbundin réttindi launafólks..

Í því atvinnuástandi sem við okkur blasir má í raun segja að það sé verið að svínbeygja verkafólk til að gefa eftir af kjarasamningsbundnum lágmarksréttindum  eingöngu til að halda vinnunni.

Almenningur hefur orðið misréttis og ójafnaðar áþreifanlega var á eigin skinni.     Í dag er það réttur rukkara og fjármagnseigenda sem kemur fyrst en síðastur kemur réttur almennings.

Þetta sést best á því hvernig rétti rukkaranna gagnvart almenningi er háttað, nánast ekkert er blakað við fjárglæframönnum sem fengu að skáka óáreittir í skjóli Allþingis og eftirlitsaðila. Og þeir skara enn eld að eigin köku án þess að mikið sé aðhafst.

Almenningi í landinu er ekki vorkennt þegar bjóða á ofan honum. Við sjáum fulltrúa rukkaranna vaða inn á heimili almennings og húsnæði þess boðið upp sé ekki staðið í skilum með greiðslur á réttu tíma. Þar er svigrúmið lítið og samúðin engin.   

Eftir situr almenningur í landinu blóðrisa eftir vönd innheimtumanna sem dynur á þeim sem ekki hafa staðið í skilum með hverja krónu. 

Er þetta hið nýja Ísland sem við viljum byggja ?

Ég segi Nei og aftur Nei.

Megin áhersla hefur nefnilega verið lögð á að bjarga fjármagnseigendum og koma þeim að kjötkötlunum að nýju.

Að þessu er unnið leynt og ljóst en skýrasta dæmið um viðvarandi siðleysi er hvernig fyrrum eigendum bankanna hafa verið tryggð áhrif og völd í fjármálalífi Íslendinga á nýjan leik.

Nýtt Ísland verður ekki byggt upp með stjórendum gömlu svikamillunar haldandi í alla spotta, á meðan okkur almenningi í landinu, er ætlað það hlutverk eitt að sópa upp rústum og ruslinu sem þessir snillingar hafa búið til.

Sú staðreynd að heimilin í landinu skuli ávallt þurfa að taka á sig stöðugar hækkanir þegar á móti blæs í efnahagslífi okkar er með öllu óþolandi.

Ekki nutu vestfirsk heimili góðs af  sterkri stöðu krónunnar og hagstæðum gengismun þegar góðærið svo kallaða strauk gullkálfum þessa lands um vanga. 

- Þar var sko öðru nær !

Við eigum ekki með nokkru móti að sætta okkur við þá kyrrstöðu og ráðaleysi sem einkennt hefur gjörðir stjórnvalda undanfarin misseri.

Við verðum að beita þrýstingi og samtöðu til að særa fram samstarf um auknar framkvæmdir og þannig tryggja stöðugra atvinnustig.

Efla þarf samstaf ráðamanna þjóðarinnar og sveitafélaga við launþegasamtök með það að leiðarljósi að verja hag heimilanna fyrir frekari áföllum.

Fara þarf í víðtækar aðgerðir sem hlúa að og styðja við þau fyrirtæki sem hafa í gegnum tíðina skapað atvinnuöryggi í heimabyggð. 

Knýjum á aukna innspýtingu í atvinnulífið svo hagvöxtur í landinu taki að vaxa á nýjan leik.

Leggjum okkar lóð á vogaskálarnar og hvetjum til áræðni í ákvarðanatöku okkar fólki til heilla. Látum ekki hrakspár um stöðnun eða algjört hrun verða að veruleika.

Við eigum ekki að líða að okkur sé stillt upp við vegg til að taka við afarkostum atvinnurekanda, sveitafélaga og ríkisvaldsins þegjandi og hljóðalaust.

Það er því hvatning mín til launþega þessa lands og ekki síst vestfirska launþega,  að þétta raðirnar,  láta í sér heyra, og hafa áhrif  með því að taka þátt í umræðum um kaup og kjör hvar sem tækifæri gefast.

Leggjum okkar lóð á vogarskálarnar þannig að á Vestfjörðum getum við átt farsæla framtíð.  Framtíð sem byggir á samtakamætti, elju og dugnaði vestfirsks launafólks.

Sýnum það í orði og í verki hvers við erum megnug með samstöðuna að vopni. Leggjumst öll á eitt til að koma forsvarsmönnum LÍÚ í skilning um það að það erum við, fólkið í landinu, en ekki þeir sem ráðum ferðinni í kjarabaráttu landverkafólks.

Horfum fram á vegin með festu og ákveðni og segjum, ég get, ég þori, ég vil og ég skal leggja mitt af mörkum til að baráttan fyrir bættum kjörum skili okkur sem mestum ávinningi inn í framtíðina.

Missum aldrei sjónar á markmiðunum, berjumst ótrauð fyrir bættum kjörum, ekki bara fyrir líðandi stund heldur líka fyrir framtíðina.

Látum þessar raddir heyrast hátt og snjallt, ekki bara á 1.maí. Tökum virkan þátt í að byggja betra samfélag.

Stöndum vörð um réttindi okkar og kjör, þetta eru ekki sjálfgefin lífsgæði,  fyrir þeim hefur verið barist í hart nær 100 ár.

Látum í okkur heyra og tökum þátt í að auka atvinnu og bæta kjörin.

Deila