Pistlar

Lífstílskreppa og skyndilausnir !

Jafnvirði 10 ára á lágmarkstaxta ! Jafnvirði 10 ára á lágmarkstaxta !

Því hefur verið fleygt að umrædd kreppa sem hefur verið mest í umræðunni síðustu misseri sé höfuðborgarkreppa. Þar hafi þenslan orðið mest og nú sé komið að skuldadögum og kreppi að bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Allt krepputal er gróf móðgun við þá sem hafa upplifað raunverulega kreppu, þar sem fólk vissi ekki hvernig það átti að sjá sér og sínum farborða næsta dag.  Sú staða er ekki upp á teningunum í dag, enda væri nær að tala um lífstílskreppu frekar en almenna kreppu, sérstaklega hjá þeim sem haft hafa næga fjármuni á milli handanna.

 

Almennt verkafólk hefur ekki haft efni á því að taka þátt í þessu lífstílskapphlaupi, enda eru tekjur þeirra skornar við nögl. Þetta verða launþegar á landsbyggðinni síður varir við þar sem ekki tíðkast að greiða laun nema eftir strípuðum töxtum og sjaldnast nokkuð meir.  Nei hjá hinum almenna launamanni getur varla kreppt meira að en þegar er orðið og allt tal um þjóðarsátt á þeim nótum sem síðast var gerð hlýtur að vera eitthvað sem launþegasamtökin eiga ekki að taka þátt í nema okkar fólki verði tryggð betri afkoma en reyndin varð þá.

 

Okkar fólk getur ekki þrengt sultarólina frekar en orðið er, en það er spurning um þá sem hrópa nú kreppa, kreppa, hver í kapp við annan hvort þeir geti ekki þrengt lífsgæðaólina, þó ekki væri nema um eitt gat. Þjóðarsáttin hefur jafnan mætt mest á hinum almenna launamanni sem ekki hefur úr miklu að moða frá degi til dags. Nú er svo komið að okkar fólk getur ekki staðið vaktina ein, það eru ekki ofurlaun eða ofurneysla verkafólks sem vagga þensluskútunni. Því fer sannarlega víðs fjarri og komið að öðrum en verkafólki að rétta af kúrsinn.

 

Fróðlegt verður að fá að sjá á spil ríkisstjórnarinnar áður en kemur að því ákvörðun verði tekin um hvort kjarasamningar verði framlengdir eða þeim sagt upp í febrúar næst komandi. Það er alveg skýrt að nú verða stjórnvöld að sýna á spilin strax í haust ef einhver grundvöllur á að vera fyrir því að orðið þjóðarsátt fái hljómgrunn hjá launþegum nú þegar gefur á þensluskútuna og lensidælan hefur ekki undan auknum skuldum heimilanna. Helst að bætt sé við borði í formi hækkandi stýrivaxta sem lítið hjálpar því alltaf sekkur skútan dýpra og dýpra.

 

Hver man ekki eftir loforðum um tímabundnar aðgerðir eins og verðtryggingu á lán?  hvar stöndum við í dag, verðtygging lána er löngu komin til að vera og ekkert í spilunum sem segir okkur að annað standi til. Eða þá niðurfellingu á verðbótum á laun sem líka átti að vera tímabundin ráðstöfun, hverju skilaði það? jú lágmarkslaun eru langt undir viðurkenndum fátækramörkum félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Svo ekki sé nú talað um skattleysismörkin eða persónuafsláttinn sem hafa dregist langt aftur úr.

 

Og nú ákalla stjórnmálamenn Evruna og aðild að Evrópusambandinu sem einhverja allsherjar lausn, ég segi maður líttu þér nær. Hverju hafa skyndilausnir skilað eins og t.d. tískumegrunarkúrar handa þeim sem vilja laga vigtina? Litlu sem engu, allt í sama farið aftur eftir skamma stund. Hverju skilar það maraþonhlaupara að hlaupa í spreng í byrjun? jú hann verður fyrstur, en bara í smá tíma. Það sem við þurfum er langtímamarkmið og þá þarf líka að velja réttu leiðina þannig að hún skili okkur öllum sem bestum árangri, en við erum svo sem ekki þekkt fyrir sérstaka þolinmæði hvorki í þessum efnum né öðrum.

 

Skyndilausnir eru ekki töfraorðið, fyrst verða stjórnvöld að hafa kjark og þor til að viðurkenna að vandinn eigi sér dýpri rætur en svo að nýr gjaldmiðill eða innganga í Evrópusambandið sé töfralausnin sem leitað sé að. Þessi heimtilbúni vandi, sem kynnt hefur verið undir með auknu aðgengi af lánsfé frjálsu bankanna, verður ekki leystur með því að viðhalda vaxtaokri á heimilin í landinu, hann verður heldur ekki leystur með því að ausa auknum fjármunum í að veita bönkum ríkisábyrgð til að tryggja þeim aðgang að ódýrara lánsfé sem yrði síðan notað til að kynda áfram undir lífsstílsþensluna. Hann verður heldur ekki leystur með enn einni þjóðarsáttinn á kostnað verkafólks.  Spennum á okkur hlaupaskóna, og höfum þá góða, því við eigum öll langhlaup fyrir höndum.
Deila