Pistlar

Munu standa vörð um sjómannaafsláttinn

Það er með öllu ótækt að í hvert sinn sem fjallað er um breytingar á skattkerfinu þá skuli eiga að höggva í sjómannaafsláttinn í leiðinni.  Sjómannaafsláttur er hluti af tekjum sjómanna, lækkun eða skerðing er bein aðför að kjörum ákveðinnar starfsstéttar á Íslandi. Sjómenn eru sagðir hálaunastétt og beri að leggja sitt til samfélagsins í sama hlutfalli og aðrir skattborgarar. Sjómenn leggja sitt til samfélagsins og rúmlega það, allt tal um að sjómenn borgi ekki sinn skerf til samfélagsins er móðgun við sjómannsstéttina.


Íslenskir sjómenn vinna við áhættustörf, störf þar sem lífaldur er styttri en gengur og gerist auk þess að búa að jafnaði við minna atvinnuöryggi. Boðaður niðurskurður á aflaheimildum mun einnig valda sjómönnum umtalsverðum tekjumissi ef af verður. Þessi stétt launþega þarf að auki að taka þátt í rekstri útgerðarinnar með kaupum á olíu á skipin sem er nokkuð stór biti að kyngja, gleymum því ekki.  Þá er ótalinn fæðis og fatakostnaður sem hleypur á hundruðum þúsunda á ári.


Við núverandi ástand hefur verið hnýtt í sjómenn að þeir hafi það alveg nógu gott, það geri lágt gengi krónunnar og hagstætt fiskverð, þeir þurfi ekki sjómannaafsláttinn. Þannig hefur það svo sannarlega ekki verið undanfarin 7-8 ár. Sjómenn vinna fyrir hverri krónu hörðum höndum og eiga þær allar skilið.  Sjómannaafslátturinn er hluti af kjörum sjómanna og verður ekki af þeim tekin án þess að fyrir verði bætt með öðrum hætti.  Samtök sjómanna og sjómannsstéttin mun bregðast hart við ef stjórnvöld ætla sér að hreyfa við málum með þeim hætti að fella niður eða skerða sjómannaafsláttinn.   

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga

Sjá umfjöllun um frumvarp fjármálaráðherra um niðurfellingu sjómannaafsláttar á MBL.IS

Deila