Translate to

Pistlar

Pistill Elsu Arnardóttur 1. maí 2013

Góðir tilheyrendur.

 

Ég óska launafólki um allt land til hamingju með daginn.

 

        Eins og þið vitið jafn vel og ég eru íbúar Vestfjarða rétt rúm sjö þúsund og þar af eru tæplega níuhundruð manns af erlendum uppruna. Tvöhundruð þeirra hafa íslenskt ríkisfang. Störfin í fiskvinnslu eru að miklu leyti mönnuð með starfskröftum fólks, sem hingað hefur flutt erlendis frá. Leyfi ég mér að fullyrða að framlag fólks af erlendum uppruna hafi skipt sköpum fyrir Vestfirðinga.

 

Byggðaþróun á Vestfjörðum hefði orðið allt önnur ef ekki hefði flust hingað fólk erlendis frá. Reyndar er spurning hvort Vestfirðir væru í byggð allt árið ef ekki væri fyrir innflytjendur, sem hér hafa sest að og vinna þau störf sem Íslendingar virðast  ekki vilja lengur vinna.

 

        Ávinningurinn af komu innflytjendanna er margvíslegur. Til dæms er mikill kostnaður af hinum dæmigerða íslendingi á meðan hann er að vaxa úr grasi - fram til tvítugs og jafnvel lengur . Nægir þar að nefna kostnað samfélagssins við skólahald allt frá leikskóla og upp úr. Kostnaðurinn af fullorðnu fólki sem hingað flytur hefur hinsvegar fallið á heimaland þeirra.

 

Erlent verkafólk leggur strax til samfélagssins með vinnu sinni og með því að greiða opinber gjöld.  Hagnaðurinn er því mikill og augljós þar sem engu er kostað til uppvaxtar viðkomandi.

 

        Íbúar með erlendan uppruna hér á Vestfjörðum koma frá tæpllega 40 þjóðríkjum, langflestir frá Póllandi, en síðan eru flestir frá Filipseyjum, Taílandi, Þýskalandi, Danmörk, Bretlandi, Portúgal og Kanada. Ástæður fólks til að flytja á milli landa eru margvíslegar. Forvitni dregur suma í ferðalög, ástin aðra, en ástæða flestra fyrir því að flytja til Íslands er vonin um betra líf fyrir sig og fjölskyldu sína.

 

        Ef að yfirskrift dagsins, kaupmáttur, atvinna og velferð á að ná til allra félagsmanna Alþýðusambands Íslands  og Verkalýðsfélags Vestfirðinga er mikilvægt að hugað sé sérstaklega að stöðu innflytjenda í samfélaginu. Tölur sýna okkar því miður að það hallar á innflytjendur á ýmsum sviðum. Þeir eru með lægri laun, fá ekki tækifæri til að nýta menntun sína sem skyldi og fyrri reynslu sína á vinnumarkaði.

 

        Atvinnuleysi bitnar harðar á innflytjendum, ekki síst langtímaatvinnuleysi. Vinnuslys eru algengari, þeir hafa síður forsjá barna sinna. Unglingar af erlendum uppruna fara síður í framhaldsskóla, en jafnaldrar þeirra, og eru líklegri til að ljúka ekki námi og svona mætti þvi miður lengi telja.

 

        Þessari þróun verður að  að snúa við. Innflytjendum verður að gefast kostur á að nýta reynslu sína og menntun sjálfum sér, fjölskyldum og íslensku samfélagi til framdráttar.

 

        Nauðsynlegt er að fólki standi til boða ókeypis íslenskukennsla og samfélagsfræðsla

 

 

        Við fæddumst ekki á Keflavíkurflugvelli eins, og svo margir Íslendingar virðast halda, er athugasemd sem vinkona mín frá Bandaríkjunum kemur stundum með.

 

        Við verðum líka að tryggja að börn af erlendum uppruna hafi sömu tæki færi til menntunar og börn íslenskra foreldra. Munum að það getur verið snúið og erfitt að læra nýtt tungumál. Jákvætt viðmót samborgara og félagsleg viðurkenning hefur sýnt sig að skipta sköpum varðandi getu okkar flestra ef ekki allra til að læra nýja hluti, ekki síst framandi tungumál.

 

        Að allir íslendingar njóti sömu tækifæra óháð uppruna, bakgrunn, lífskoðun og búsetu svo eitthvað sé talið verður að vera sameiginlegt baráttumál okkar allra og krefjandi verkefni fyrir verkalýðshreyfinguna. Að börn geti vaxið úr grasi og verið stolt að því að vera af erlendum uppruna og verið stolt af því að vera íslendingar um leið.

 

        Í lokin langar mig að segja mjög svo skemmtilega sögu af sjö ára strák sem er fæddur hér en báðir foreldar eru af erlendum uppruna, Faðirinn er frá Póllandi og móðirin frá Filipseyjum. Fjölskyldan sat í fyrra saman við sjónvarpið og var að horfa á opnunarathöfn Olympíuleikanna. Þá sagði strákur við  föður sinn þegar Pólski fáninn birtist: þarna er fáninn þinn pabbi. Þegar  Filipínska sveitin birtist með sinn fána sagði hann við móður sína:  þarna er fáninn þinn mamma. Þegar hinn íslenski birtist sagði hann með miklu stolti: og þarna er fáninn minn.

 

Takk fyrir

Deila