Translate to

Pistlar

Sambærileg krónutöluhækkun til aldraðara og öryrkja ekki ofrausn

Eiga betra skilið! Eiga betra skilið!

Það var skilningur okkar sem stóðum að gerð og undirritun kjarasamninga fyrir hönd launþega að hinn margumtalaði ríkisstjórnarpakki myndi skila öldruðum og öryrkjum sömu lágmarkshækkun og var ákveðin á taxtalaun. Það eru því gríðarleg vonbrigði að niðurstaða ríkisstjórnarinnar skyldi einungis vera 4 - 5.000 króna hækkun til þessara þjóðfélagshópa. Það er skömm að því að enn og aftur skuli vera vegið að þeim sem síst mega sín í samfélaginu og þeim einungis skammtaðar um 4% hækkanir á eigin framfærslu.

Það á að vera skýlaus krafa að ríkisstjórnin geri betur við þessa þjóðfélagsþegna en svo, að stór hluti þeirra þurfi áfram að draga fram lífið undir fátækramörkum. Sá gjörningur að komast að þeirri niðurstöðu að þessar 4.000 - 5.000 krónur séu sambærilegar við þær 18.000 krónur sem náðust á taxtalaun er með öllu óskiljanlegur útreikningur. Verður kannski það sama uppi á teningnum þegar kemur að því að reikna út hækkun grunnatvinnuleysisbóta?

Ríkisstjórnin á ekki að stuðla að skerðingu lífskjara þessara hópa eins og nú mun verða raunin með þessari ákvörðun. Ríkisstjórnin á að sjá sóma sinn í því að stuðla bættum kjörum varðandi afkomu öryrkja og eldri borgara á Íslandi.

Deila