Translate to

Pistlar

Stjórnvöldum ber skylda að verja störf fiskverkafólks

Treystum þeirra störf Treystum þeirra störf
Löndun tengist ekki frétt Löndun tengist ekki frétt

Það á ekki að taka því af neinni léttúð að fiskvinnslur skuli boða lokanir og uppsagnir í stórum stíl vegna skerðingar á þorskkvóta. Málið er ekki svo einfalt að það sé hægt að skella allri skuldinni á aflaskerðinguna. Undanfarinn áratug höfum við upplifað breytta tíma í vinnslu sjávarafurða. Með aukinni tækniþróun hefur störfum í fiskvinnslu fækkað, en jafnframt hefur framleiðni í vinnslu stóraukist. Í því ljósi skýtur það skökku við að laun og  bónus til fiskvinnslufólks hafi ekki hækkað í samræmi við framleiðniaukningu í greininni.

Störfum í fiskvinnslu hefur fækkað jafnt og þétt undanfarin áratug, og er svo komið að með nýlegum uppsögnum og boðuðum lokunum í fiskvinnslu, þá verði hlutfall tapaðra starfa í vinnslu um 40% frá árinu 1997. Stærsta mótvægisaðgerð ríkisstjórnarinnar til fiskverkafólks ætti því að vera fólgin í því að stuðla að aukinni fullvinnslu þess afla sem nú er fluttur úr landi óunninn. Sú hætta mun skapast í greininni ef af frekari fækkun verður, þá muni verkkunnátta í fiskvinnslu að tapast í stórum stíl.  Það býr mikill auður í verkkunnáttu og þekkingu fiskverkafólks, sá auður er ekki metinn að verðleikum þegar kemur að uppsögnum eða lokunum vegna meints hráefnisskorts. Hvað er það annað en meintur hráefnisskortur þegar útflutningur á óunnum bolfiski hefur aukist frá síðasta kvótaári? Nýlegar tölur frá Fiskistofu sýna og sanna svo ekki verður um villst að útflutningur bæði á Ýsu og Þorski hefur aukist á fyrstu fjórum mánuðum yfirstandandi kvótaárs.

Sá gjörningur að afnema kvótaálag á útflutning gámafisks, og boða síðan skerðingu aflaheimilda, er með öllu óskiljanlegur. Nær hefði verið að auka kvótaálagið eða takmarka með öðrum hætti útflutning á óunnum sjávarafurðum. Hér þurfa stjórnvöld að bregðast við og það strax. Auðvelda þarf aðgang fiskvinnslu að þeim afla sem fluttur er úr landi óunninn og efla vinnslu og verðmætasköpun sjávarfurða. Styrkja og hvetja til nýsköpunar í sjávarútvegi þannig að komi til fjölbreyttari starfa í fiskvinnslu og störfum henni tengdum til eflingar sjávarbyggðum landsins.

Hér þarf að gera stórátak í vöru- og markaðsmálum, einnig þarf að gera stórátak í framhaldsmenntun fiskvinnslufólks. Efla þarf verknámsbrautir víðsvegar um land, og gera þeim skólum sem eru í beinum tengslum við sjávarútveginn kleift að starfrækja "Sjávarafurðarbrautir" sem menntuðu sérhæft fiskvinnslufólk, sambærilegt við kjötiðnaðarmenn. Þetta starfsfólk, sem yrði með mikla verkkunnáttu og aukna þekkingu og menntun á sviði sjávarafurða, myndi skjóta enn styrkari stoðum undir þá gæðaframleiðslu sem íslenskar sjávarafurðir eru og eiga að vera.

Með þessu væri grunnurinn lagður að aukinni verðmætasköpun sem síðan skilaði vinnslunni auknum hagnaði og starfsfólkinu öruggara starfumhverfi og hærri launum. Það á að vera eftirsótt að vinna við verðmætasköpun í sjávarútvegi. Á meðan starfsöryggi og launaumhverfi fiskverkafólks er með þeim hætti sem nú tíðkast eru framtíðarhorfur í starfsgreininni ekki góðar. Hættan á fjöldaflótta úr greininni eykst ef ekki kemur til róttækra aðgerða af hálfu stjórnvalda til eflingar fiskvinnslu á Íslandi.
Deila