VIRK - endurhæfing

Aukin hreyfing í daglegu lífi er ávísun á betri heilsu

Það að hreyfa sig reglulega í daglegu lífi hefur orðið æ sjaldgæfara á undanförnum árum enda flestir farnir að vinna kyrrsetustörf og sitja einnig mikið fyrir í sínum frítíma. Nýleg sænsk  rannsókn sem birtist í október hefti British Journal of Sports Medicine (non-exercise physical activity; NEPA) sýnir að einstaklingar sem eru líkamlega virkir í sínu daglega lífi eru við betri heilsu en kyrrsetufólk óháð því hvort þeir stunda einnig hefðbundna líkamsrækt á borð við hlaup eða æfingar í líkamsræktarsal.

Rannsóknin fór þannig fram að þriðja hverjum 60 ára einstaklingi í Stokkhólmi var boðið að taka þátt. Alls tóku 4.232 einstaklingar þátt eða 78% af þeim sem fengu boð. Dagleg hreyfing var metin með spurningalista og ástand hjarta- og æðakerfis var metið með læknisskoðun og rannsóknum. Þátttakendum var fylgt eftir að meðaltali í 12.5 ár til að fylgjast með heilsufari og dánartíðni. Niðurstöður voru á þá leið að þeir sem stunduðu mikla daglega hreyfingu höfðu minna mittismál, betri blóðfitugildi og lægri blóðsykurs- og fíbrínógen gildi óháð því hvort þau stunduðu hefðbundna líkamsrækt eða ekki. Meiri dagleg hreyfing tengdist einnig lægri áhættu á að fá fyrsta hjartaáfall og lægri dánartíðni. 
Að auka hreyfingu í daglegu lífi er eitthvað sem við ættum öll að stefna að og ekki síst þeir sem stunda starfsendurhæfingu. Tökum stigana í stað lyftunnar, leggjum bílnum lengra frá, stöndum reglulega á fætur og tökum léttar hnébeygjur af og til.

Deila