VIRK - endurhæfing

Hræðsla við verki getur tafið fyrir bata

Verkir og eymsli geta eðlilega valdið áhyggjum og hræðslu. Hræðslan getur orðið til þess að fólk hættir að framkvæma hreyfingar sem valda þeim sársauka. Í stað þess að leiða til bata getur slík hegðun í sumum tilfellum leitt til stirðleika og kraftminnkunar sem smám saman veldur því að fólk hættir jafnvel að geta gert hluti sem það var vant að gera. Með tímanum getur hræðslan við verkina jafnvel orðið aðalvandinn í stað verkjanna sjálfra. Þetta á ekki hvað síst við um bakverki. Verkjatengd hræðsla getur jafnvel aukið líkur á því að fólk fái nýtt bakverkjakast eða því að bakverkir verði að langvarandi vandamáli. Rannsóknir benda til að árangur meðferðar við bakverkjum sé meiri ef tekið er markvisst á hræðslu við verki og því hreyfingaleysi sem hún veldur m.a. með uppbyggjandi fræðslu.

Þetta og margt fleira athyglisvert kemur fram í greinum annars vegar Leeuw og félaga sem birtist í febrúarhefti Journal of Behavioral Medicine árið 2007 og hins vegar Rainville og félaga sem birtist í  The Spine Journal árið 2011.

Lesa meira

Deila