VIRK - endurhæfing

Hreyfing lykilatriði í góðri líðan

„Ég byrja á að skoða með fólki hvaða hindranir eru helstar, hvort svefninn sé í lagi, næringin eðlileg og hvort hreyfing sé í eðlilegum farvegi. Um er að ræða lykilatriði sem styðja hvert annað.“ segir Guðrún Guðmundsdóttir ráðgjafi VIRK hjá Sameinaða lífeyrissjóðnum. „Sænskar rannsóknir sýna að fólk hreyfir sig fremur eftir hreyfiseðli heldur en að taka lyf eftir lyfseðli. Hreyfing er ódýrt úrræði sem reynist vel. Hún er ekki svar við öllu en hún er ákveðinn styrkur með þá öðrum úrræðum, svo sem t.d. lyfjagjöf og sálfræðimeðferð. Hreyfingin er líka eitt af þeim úrræðum sem skjólstæðingurinn getur haft góða stjórn á.

Mikilvægt er að skjólstæðingarnir hafi frumkvæði. Í uppfræðslu okkar ráðgjafanna hjá VIRK er lögð mikil áhersla á að við notum það sem kallað er áhugahvetjandi samtöl. Þá er grundvallaratriði að kortleggja styrkleika og hindranir og vita hvaða breytingar viðkomandi er tilbúinn til að fara í. Við reynum að glæða áhugahvöt, ef hún er ekki fyrir hendi gerist lítið. Oft þarf líka að huga að félagslífi viðkomandi og áhugamálum. Ef dofnar yfir fólki færist það gjarnan yfir á þann vettvang líka. Ef vel gengur kemur úr út þessu samstarfi aukinn áhugi á lífi og starfi og þátttaka á vinnumarkaði. Það er gaman að sjá sjálfstraust fólks aukast og það gerir starf ráðgjafans áhugavert og skemmtilegt.“ segir Guðrún m.a. í viðtali sem birtist í Ársriti VIRK 2015 og sjá má hér.

Deila