Translate to

Saga félagsins

Þættir úr sögunni

Síldarsöltun á Ísafirði, Edinborgarbryggja í bakgrunni. Síldarsöltun á Ísafirði, Edinborgarbryggja í bakgrunni.
Sýrafellirinn. Sýrafellirinn.

Verkfall Baldurs á Ísafirði í febrúar 1926 er talið það mikilvægasta á upphafsárum félagsins. Finnur Jónsson formaður Baldurs árin 1921-1932, alþingismaður og síðar ráðherra, skrifaði um það: „Enn stóðu þó stærstu atvinurekendurnir, með bankaútibúin að bakhjalli, í hatramlegri andstöðu við fólkið og hugðust að kúga það undir sig. Hörðustu átökin urðu vorið 1926. Þá buðu atvinnurekendur verkafólkinu slík smánarboð, að alþýðan þoldi þetta ekki lengur, heldur fylkti liði í Baldri og braut vald þeirra á bak aftur." 

Aðdragandinn var sá að haustið 1925 lækkuðu atvinnurekendur á Ísafirði laun verkamanna úr 1,30 kr. á tímann um 20 aura. Fremstir í flokki atvinnurekenda voru Jóhann Þorsteinsson kaupmaður, Hinar Sameinuðu íslensku verslanir og verslunarstjóri þeirra Sigfús Daníelsson og Jóhann J. Eyfirðingur kaupmaður. Verkalýðsfélagið hafði enga samninga við atvinnurekendur og treysti sér ekki til að halda uppi kaupinu. Um allt land kröfðust atvinnurekendur launalækkunar vegna gengishækkunar íslensku krónunnar árið 1925, en verkalýðsfélögin hömluðu á móti, með misjöfnum árangri.  Í byrjun febrúar 1926 tilkynntu atvinnurekendur á Ísafirði um enn frekari launalækkun. Kaup karla yrði 1,00 kr. á tímann en kvenna 60 aurar í stað 80 aura. Þá var verkafólki nóg boðið.

Félagsfundur í Baldri ákvað að skipa nefnd til að ná samningum við atvinnurekendur og sætta sig ekki við launalækkunina.  Flutningaskipið Mjölnir kom til bæjarins 7. febrúar að taka saltfisk. Var þá tækifæri notað til að þrýsta á atvinnurekendur. Þegar útskipun var hafin, lýsti verkalýðsfélagið yfir verkfalli, nema atvinnurekendur hétu því að koma til samingaviðræðna. Fengu atvinnurekendur frest til hádegis daginn eftir, til að svara kröfunni.  Næsta dag auglýsti Jóhann Eyfirðingur að hann greiddi 1,oo krónu fyrir vinnu við útskipun, en umboðsmaður hans í Reykjavík, Ólafur Benjamínsson fiskkaupmaður, myndi greiða 20 aura álag fyrir útskipun við Mjölni. Samninganefnd Baldurs taldi þetta tilboð ekki aðgengilegt og verkfallið hélt áfram. 

Í kjölfarið kom til átaka við Edinborgarbryggjuna á Ísafirði þann 9. febrúar 1926. Atvinnurekendur fengu nokkra verkamenn til að mæta til vinnu, en félagar í Baldri fjölmenntu á bryggjuna og komu í veg fyrir að útskipun færi fram. Var bæjarfógetinn, Oddur Gíslason kvaddur á staðinn til að „gæta laga og réttar".  Skutull, málgagn jafnaðarmanna sem séra Guðmundur frá Gufudal ritstýrði, sagði svo frá atburðunum: „Fógeti var á vettvang kominn og hafði fengið sér varaskeifu eður viðauka við lögregluliðið. Var viðauki sá Norðmaður einn, sem hér hefur verið, O. G. Syre, talinn skrambans vel að manni, lifrarbraskari og m.m.  Skarst hann í leikinn og lenti af því saman við verkamann einn. Gekk sá svo fast að þeim norska, að hann fór undan á hæli uns leikurinn barst að lifrartunnum fullum. Verkamaðurinn drap Syre þar niður á milli eins og smjöri í öskju. Er þá sagt að fógeta yrði að orði: „Ætli hann hafi meitt manninn?" En það var ekki hætt við því. Austmaðurinn skreið strax upp aftur og hélt heimleiðis óhaltur og yfirlætislaus, eins og hann er vanur." 

Sagan af átkökum Sigurðar Bjarnasonar og Norðmannsins hefur lifað í munnmælum á Ísafirði æ síðan. Sagan fær staðfestingu í því að Verkalýðsfélagið Baldur hefur látið gera heiðurspening og afhent Sigurði „Syrafelli" í kjölfar atburðanna. 

Af verkfallinu var það að frétta að flutningaskipið Mjölnir hélt í burtu eftir slaginn á Edinborgarbryggjunni, án þess að taka meiri saltfisk í það skiptið. Félagsfundur í Baldri samþykkti að halda verkfalli áfram hjá þeim fyrirtækjum sem lækkað höfðu launin og á fundinum skráðu meir en 50 nýir meðlimir sig í félagið. 

Verkfallið stóð í tvær vikur enn þar til atvinnurekendur samþykktu skriflegan samning við Verkalýðsfélagið Baldur. Launin hækkuðu aftur um 10-35 aura, svo kauplækkunin náðist að hluta til baka. Kaup karla varð 1,10 kr. og kvenna 0,70 kr., en 5 aura álag kom á vinnu við upp- og útskipun. Það sem meira var um vert, var að í fyrsta sinn fékk Baldur viðurkenningu á samningsrétti sínum með undirrituðum skriflegum samningum og forgangsréttur meðlima félagsins til vinnu var bundinn í samninginn. Á þeim tíma höfðu aðeins fá verkalýðsfélög náð þeim áfanga hér á landi. Samningsréttur Baldurs var viðurkenndur eftir þetta.